Græskulausar gamansögur af Vestfirðingum
Við þurfum að reyna að halda uppi húmornum!
Vestfirska forlagið hefur í gegnum tíðina lagt áherslu á að halda uppi græskulausum húmor. Hefur það gefið út um 20 bækur af því taginu. Um síðustu jól komu til dæmis tvær bækur út hjá forlaginu sem eru helgaðar því að reyna að hafa gaman af þessu veseni öllu. Ekki veitir nú af. Það voru bækurnar Vestfirskir sjómenn í blíðu og stríðu og Vestfirskir stjórnmálamenn í blíðu og stríðu. Hvoru tveggja alþýðusögur í léttum dúr að vestan sem allar hafa birst áður.
„Gamanmál eru nauðsynleg, en að baki þeim býr alvara lífs og dauða. Það vitum við sjómennirnir ef til vill betur en aðrir.“ Svo mælti hinn landsþekkti skipherra, Eiríkur Kristófersson, sem var Vestfirðingur í húð og hár. Þetta er hárrétt hjá þeim gamla.
Framvegis munum við birta öðru hvoru hér á Þingeyrarvefnum sögur og sagnir úr Hinum miðlæga vestfirska gagnagrunni gamansagna. Það er orðið gífurlega umfangsmikið gagnasafn. Enginn hefur yfirleitt verið beðinn um leyfi þó sagnir af honum hafi verið settar í þennan grunn. Hinu er ekki að leyna að frekar hafa menn orðið móðgaðir ef þeir hafa ekki verið settir í grunninn. Er það að sjálfsögðu sök forlagsins þegar slíkt kemur uppá.
Við byrjum á stjórnmálamönnunum.
-Vestfirskir stjórnmálamenn í blíðu og stríðu-
Bók þessi er tileinkuð minningu stjórnmálamannsins Jóns Sigurðssonar forseta (17. júní 1811 - 7. des. 1879).
Hann var óþreytandi að benda samlöndum sínum á að nýta landsins gæði á réttan hátt. Hann gagnrýndi dönsku stjórnina hispurslaust með málefnalegum rökum. Slíkt er ekki ætíð til vinsælda fallið. En hann var alltaf þinglegur og kurteis.
Danskir ráðamenn báru fyrir honum mikla virðingu og kom það margsinnis fram. Hann var hrókur alls fagnaðar og fór oft með græskulaust gaman.
Á götum úti, þar er Jón var á ferli, námu menn staðar eða litu um öxl, til að virða þennan höfðinglega Vestfirðing fyrir sér.