01.06.2010 - 10:41 | JÓH
Grænir dagar á Þingeyri
Í dag er grænn dagur hjá Grunnskólanum á Þingeyri. Nemendur skólans ætla að taka að sér gróðursetningu í gróðurreit skólans og sinna tiltekt í umhverfi skólans, sem og vinna verkefni á skólalóðinni. Á morgun stendur foreldrafélag leikskólans Laufáss fyrir grænum degi milli 15 og 18 í leikskólanum. Þá munu foreldrar og börn setja niður kartöflur og aðrar matjurtir ásamt því að huga að viðhaldi við leikskólann. Á heimasíðu leikskólans kemur fram að sérstök áhersla verði lögð á að laga svæðið undir gafli hússins og eru foreldrar beðnir um að taka með sér tilfallandi verkfæri s.s. gróthrífur, kústa, stunguspaða og fleira. Þá verða einnig kynntar hugmyndir einkalandslagsarkitekts á svæðinu. Að vinnu lokinni verða svo grillaðar pylsur, boðið upp á andlistsmálum og fleiri skemmtilegheit.