A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
01.07.2012 - 22:32 | JÓH

Góðir Dýrafjarðardagar að baki

Fjölmenni var á kvöldvökunni í gær.
Fjölmenni var á kvöldvökunni í gær.
« 1 af 5 »
Dýrafjarðardögum lauk með tónleikum The Saints of Boogie Street í Þingeyrarkirkju í dag en þetta var í 11. sinn sem hátíðin var haldin. Mikið fjölmenni var á hátíðinni enda veðrið með eindæmum gott og fjölbreytt dagskrá fyrir hátíðargesti. Erna Höskuldsdóttir, einn skipuleggjandi hátíðarinnar, segir að hátíðin hafi gengið vel fyrir sig. „Það gekk allt vel og við erum mjög ánægð með mætinguna á hátíðina. Við gátum til dæmis ekki beðið um betra veður, fólk var bara í rólegheitum út um allan bæ og hafði það notalegt".


Í gær gengu á þriðja tug hátíðargesta á söguslóðir Gísla Súrssonar undir leiðsögn Þóris Arnar og gæddu sér á rabarbaragraut að hætti Sigrúnar á Kirkjubóli. Fjölmargir gæddu sér á súpu í garði á Vallargötu við undirspil harmonikuleikara, en boðið var upp á margs konar súpur og meðlæti. Tíu lið voru skráð til fótboltaleiks á Þingvelli og í Félagsheimilið mættu rúmlega hundrað manns til að horfa á Góa og Þröst Leó sýna brot úr leikritinu Gói og baunagrasið. Þá öttu krakkarnir kappi í kassabílarallý og foreldrarnir kepptu með ungana sína í kerruhlaupi þar sem pabbarnir mættu sterkir til leiks. Harmonikuball var seinni partinn í Félagsheimilinu þar sem sjö harmonikuleikarar ásamt söngvara léku fyrir dansi, og grillveislan var á sínum stað. „Við erum alltaf að reyna gera betur og núna buðum við upp á ferskt salat með grillmatnum. Garðyrkjubændur á Íslandi voru svo almennilegir að gefa okkur grænmetið í salatið og auðvitað fengum við góða hjálp við að skera það niður", segir Erna.

 

Aðspurð um hvað standi upp úr eftir hátíðina segir Erna að það sé erfitt að svara því, það hafi hreinlega allt verið skemmtilegt. „Það er kannski hægt að nefna grillveisluna og kvöldvökuna. Við fengum góða gesti þangað og fólk var almennt afslappað, borðaði góðan mat í góðum félagsskap og í fallegu umhverfi. Barnaskemmtunin í Félagsheimilinu var frábær, hún höfðaði ekki síður til foreldranna og allir skemmtu sér vel. Ég verð líka að nefna ballið með Pöpunum í Félagsheimilinu. Þar var frábær stemmning og allt fór mjög vel fram. Svo fengum við víkinga í heimsókn frá Akureyri og Hafnarfirði sem sýndu listir sínar í bænum, þeir settu mikinn svip á hátíðina. Hljómsveitin The Saints of Boogie Street sló í gegn í kirkjunni í dag, það var þéttsetin kirkja og fólk hreifst af tónlistinni. Hljómsveitin er Leonard Cohen tribute band og spilar þar af leiðandi ljúfa tónlist, og það var gott að enda hátíðina á þeim nótunum". Erna segir að það megi ekki heldur gleyma öllu því listafólki sem stóð fyrir sýningum og menningartengdum atburðum sem settu mark sitt á hátíðina, en eins og fyrri ár þá lögðu þeir sitt af mörkum.

Erna segir að svona hátíð gangi ekki upp án þess að allir hjálpist að og vil að lokum þakka öllum þeim sem komu á hátíðina, þeim sem gáfu vinnu sína eða styrktu hátíðina með einum eða öðrum hætti, það sé einfaldlega ómetanlegt að eiga góða að.

Nokkrar myndir frá Dýrafjarðardögum eru komnar í albúmið hér. Einnig má finna myndband á bb.is þar sem sýnt er frá hátíðinni á laugardeginum.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31