A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
16.07.2010 - 12:17 | bb.is

Góð þátttaka í hlaupahátíð

Frá Vesturgötuhlaupinu í fyrra.
Frá Vesturgötuhlaupinu í fyrra.
Hlaupahátíð er nú haldin í annað sinn í Ísafjarðarbæ með Óshlíðarhlaupi, Vesturgötu og fjallahjólreiðakeppni Höfrungs. „Það stefnir í mjög góða þátttöku. Það er vel á annað hundrað skráningar komnar í hvort hlaupið og 30 skráðir í hjólreiðakeppnina sem er mun betra en reiknað var með," segir Heimir Hansson einn af skipuleggjendum hlaupsins. Einungis 111 keppendur geta tekið þátt í lengri vegalengdinni í Vesturgötunni og 62 í þeirri styttri þar sem ferja þarf keppendur að rásmarki. Hátíðin hefst á Óshlíðarhlaupinu í kvöld og hefst það kl. 20. Þetta er í 18. sinn sem hlaupið fer fram. Á morgun fer fram 55 kílómetra fjallahjólreiðakeppni. Á Þingeyri verður einnig skemmtiskokk fyrir alla fjölskylduna á morgun. Á sunnudag er svo Vesturgatan, sem er hlaup á Svalvogahringnum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.

Fjallahjólreiðakeppnin verður nú haldin í fyrsta sinn en hún hefst á rásmarki við sundlaugina á Þingeyri kl. 10 en þaðan verður hjólað að flugvellinum þar sem keppnin verður gefin frjáls. Leiðin liggur í gegnum bæjarhlaðið á Kirkjubóli, upp Kirkjubólsdal og yfir Álftamýrarheiði, og niður að sjó, „út fyrir nes", eftir ýtuvegi Elíasar Kjaran inn Dýrafjörð, inn að flugvellinum og frá flugvellinum um 2 km á malbiki inn á Þingeyri.

Í Óshlíðarhlaupinu er hlaupið hálft maraþon frá Bolungarvík til Ísafjarðar en einnig er boðið upp á 10 km hlaup og 4 km skemmtiskokk. Óshlíðarhlaupið fer fram í 18. sinn í sumar en það hefur verið haldið samfellt frá árinu 1993. Ræst verður út í víkinni kl. 20 í kvöld og styttri 20:30. Eru ökumenn bíla sem verða á ferðinni að gæta sín og sýna hlaupurunum tillitssemi.

Vesturgötuhlaupið verður haldið fimmta árið í röð í sumar en þar er full vegalengd 24 km en einnig er boðið upp á hálfa leiðina, 12 km. Þar er hlaupin hin stórbrotna leið fyrir Svalvoga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem er ekki síður hrikaleg en Óshlíðin. Áður en Elís Kjaran gerði veginn sem hlaupið er eftir var engin vegtenging milli Lokinhamradals og þjóðvega landsins. Er keppendum bent á að örlítil breyting hefur orðið á mætingartíma, en rástíminn er þó hinn sami. Keppendur í 24 km vegalengdinni eru beðnir um að mæta kl. 8:30 við sundlaugina á Þingeyri og keppendur styttri vegalengdarinnar kl. 11:30.

Hlaupafélagið Riddarar Rósu og LangVest sem standa fyrir hátíðinni.
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31