A A A
  • 1954 - Fríður Jónsdóttir
  • 1957 - Sigurður Rúnar Jónsson
Það er ekki að því að spyrja þegar Dýrfirðingar koma saman að lyfta sér upp úr hversdagsleikanum með söng og hljóðfæraleik. Þá lifnar yfir mannlífinu. Hefur svo verið lengi.

Rifja má upp að karlakór var stofnaður á Þingeyri 1906, einn sá fyrsti á landinu og hét Svanur. Lúðraflokkur stofnaður þar 1910, Big band þeirra tíma, var líka einn sá fyrsti á landinu og hét Lúðrasveit Dýrafjarðar. Svona mætti lengi telja.

 

Á nýliðnum Harmonikudegi, 2. maí, sem haldinn var hátíðlegur um land allt, komu Harmonikukarlarnir og Lóa með dragspil sín í Félagsheimilið og héldu ókeypis stórtónleika með ýmsum öðrum kröftum. Sannleikurinn er sá að harmonikukarlarnir í Dýrafirði, með Guðmund Ingvarsson hljómsveitarstjóra (og konsertmeistara) í broddi fylkingar, hafa nú all mörg lög á tónleikaskrá sinni sem þeir geta spilað kinnroðalaust hvar sem er og hvenær sem er, enda margar æfingar að baki. Elínbjörg Snorradóttir, húsfrú á Mýrum, Lóa, hefur svo viss dempandi áhrif á karlana, með hógværri framkomu sinni og elskulegheitum, að þeir fari ekki fram úr sjálfum sér. Karlarnir voru 12 með Lóu, og auk þess Líni Hannes Sigurðsson sem leikur á hljómborð og er eiginlega orðinn fastur maður í bandinu og Jón Sigurðsson sem lék á banjo og mandólin.

 

Kirkjukór Þingeyrar söng nokkur lög og gerði það ljómandi vel og fallega undir nákvæmri stjórn Kristu Sildoja. Í kórnum voru konur í meirihluta, 11 talsins á móti 6 karlaröddum. Góður og áhugasamur kirkjukór er prýði hvers byggðarlags. Kirkjukór Þingeyrar hefur svo sannarlega ekki látið sitt eftir liggja í gegnum tíðina. Heiðursgestur samkomunnar og gestaspilari var Karl Jónatansson, nú búsettur á Núpi. Karl er einn af Nestorum íslenskra harmonikuleikara og hefur þanið dragspilið eins lengi og elstu menn muna. Kallinn er lítið farinn að ryðga þó kominn sé til aldurs. Hann er með listagrip í höndum og var sem fjórar væru á lofti í sumum lögunum sem hann tók. Karl sagðist hafa leikið undir hjá franskri söngkonu fyrir 150 árum og lék franska lagasyrpu af mikilli innlifun af því tilefni. Þeir eru gamansamir, harmonikukarlarnir! Karl sagði áheyrendum frá því, að óvíða á landinu væru jafn margir harmonikuleikarar og í Dýrafirði.

 

Þeir kumpánar Ásvaldur Guðmundsson og Sigurður Friðrik Jónsson léku nokkur lög á díatóniskar tvöfaldar harmonikur, en það eru litlar tvöfaldar hnappaharmonikur, sem eru orðnar mjög fágætar. Kátir karlar léku við undirleik þeirra Sildoja hjóna og Gunnar Gísli Sigurðsson lék á munnhörpu, eiginlega svipað hljóðfæri og Bob Dylan leikur á, við gítarundirleik Raivo Sildoja. Svo lék Dragedukken hljómsveitin lag eftir Steinbach faktor við ljóð Lína Hannesar, Síðasti valsinn.

 

Gunnhildur Elíasdóttir, formaður Kvenfélagsins Vonar, afhenti formlega þeim Rakel Brynjólfsdóttur og Jóni Sigurðssyni, húsvörðum Félagsheimilisins, ýmsar gjafir sem kvenfélagið hefur safnað fyrir að undanförnu. Kennir þar ýmissa grasa og ekki ónýtt að eiga þær góðu konur að. Að lokum var stiginn dans, sem hófst á marsi sem Bergur Torfason stjórnaði.

Félagsheimilið var fullt út úr dyrum þennan Harmonikudag, 150 manns takk. Einkum var áberandi hvað margt aðkomumanna var á staðnum. Dagurinn var öllum aðstandendum til sóma.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31