A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
19.04.2012 - 09:50 | JÓH

Gjöf fyrir soninn sem vatt upp á sig

Dúabíllinn. Mynd: Úlfar Már
Dúabíllinn. Mynd: Úlfar Már
« 1 af 2 »
Svokallaðir Dúa-bílar eru nú fáanlegir aftur eftir langt hlé en ungur smiður úr Dýrafirði, Úlfar Már Sófusson, smíðar leikföngin í frímtíma sínum. Dúa-bílarnir eru dýrfirsk hönnun og voru fyrst smíðaðir á 9. áratug síðustu aldar í leikfangasmiðjunni Öldunni á Þingeyri. Nafn bílsins er dregið af þeirri skemmtilegu fjörðun sem er í bílnum og gerir það að verkum að bíllinn „dúar". Foreldar Úlfars keyptu leikfangasmiðjuna Ölduna af Kaupfélagi Dýrfirðinga á 10.áratugnum og tóku þá við smíði bílanna. „Pabbi minn smíðaði bæði Dúabílana og Dúdú vagnana í nokkur ár. Eftir að hann lést hefur lítið sem ekkert verið smíðað af þessum bílum eða þar til ég tók mig til haustið 2009 og gerði nokkra bíla, meðal annars vegna þess að þá hafði ég sjálfur nýlega eignast strák og langaði til þess að hann fengi sinn bíl".

Úlfar Már gerði hlé á smíðunum en byrjaði aftur á þeim í janúar síðastliðinn vegna mikillar eftirspurnar: „Í upphafi var hugmyndin að gera þetta fyrir fjölskyldu og vini, meira svona sem „hobbý", en þetta hefur undið aðeins upp á sig, meðal annars vegna hvatningar frá fólki. Ég hef ekkert auglýst bílana nema með Facebook-síðunni en samt hefur allt sem ég hef smíðað selst upp og ég er með fólk á biðlista eftir bílum."

Dúa-bílarnir eru algjörlega handunnir og segir Úlfar að mikill tími fari í smíði hvers bíls, hann renni meðal annars öll dekkin sjálfur. „Ég hef aðallega smíðað bílana í frítíma mínum og mun að öllum líkindum byrja að smíða dúkkuvagnana líka þar sem ég hef talsvert verið spurður um þá."

Allir bílarnir eru sérpantaðir og því getur fólk valið bílnúmer á bílana eða jafnvel fengið nafn barnsins skráð á þá. Úlfar hefur einnig tekið að sér viðgerðir á eldri Dúa-bílum. Frekari upplýsingar um bílana er hægt að finna á Facebook, í grúppu sem heitir Dúabílar, eða hjá Úlfari í netfangið wolfe1823@gmail.com eða í síma 868-1257.

Til gamans má geta að viðtal við Úlfar er einnig að finna í Fréttablaðinu í dag, og hér á Vísi.is.
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31