Gísla saga Súrssonar á nótum
Hér kemur einn léttur af Jóni Þorsteini Sigurðssyni, Nonna rebba.
Þeir duttu í það einu sinni sem oftar, Baldur Sigurjónsson organleikari við Þingeyrarkirkju og trésmiður og Nonni rebbi. Sátu þeir vinirnir heima hjá Nonna og drukku mjöð og mungát sér til skemmtunar.
Rebbi átti gamalt fótstigið orgel. Bað hann nú Baldur að spila eitthvað gott fyrir sig. Baldur sagðist ekki geta spilað nema eftir nótum. Ef Nonni vildi hlaupa heim fyrir sig eftir nótnabók, þá skyldi hann spila eitthvað fjörugt fyrir kallinn.
Rebbi af stað eins og skot og fann strax nótnabókina. Og kom með hana á spretti. Baldur setti sig í stellingar og hóf upp hendur að lemja nótnaborðið. Stoppaði svo með hendur á lofti og sagði:
„Ertu nú orðinn alvitlaus, Nonni minn. Heldurðu að ég geti spilað Gísla sögu Súrssonar?“
Hallgrímur Sveinsson.