A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
25.07.2017 - 17:50 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson,Ferðafélag Íslands,Björn Ingi Bjarnason

Gengið í Galtarvita - „Ég held ég gangi heim“

Galtarviti. Ljósm.: Ágúst Atlason.
Galtarviti. Ljósm.: Ágúst Atlason.
« 1 af 2 »

Af óviðráðanlegum ástæðum kemst Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður ekki á Galtarvita með okkur. 

Þess í stað er afráðið að Snorri Helgason (Sprengjuhöllin ofl.) verði okkur til gleði á kvöldvöku í vitanum fyrsta kvöldið þar. Með Snorra verður uppistandarinn og leikarinn Saga Garðarsdóttir sem þekkt er fyrir húmor sinn og skemmtilegheit í hvívetna. Ólafur Jónasson, eigandi Galtarvita, verður svo með sögustund. 

Vegna affalla eru laus 6-8 sæti í ferðina. Það væri frábært ef þið fengjuð vini eða vandamenn til að slást í för. 

26. - 30. júlí 2017 -  5 dagar

 

Á Galtarvita

Ferðafélag Íslands býður í fyrsta sinn upp á gönguferð um Klofningsheiði milli Önundarfjarðar og Súgandafjarðar og seinan úr Skálvík á Galtarvita. Eftir að hópurinn hefur komið sér fyrir í friðarsetrinu í Holti í Önundarfirði er kíkt á snjóflóðagarðana á Flateyri og sagan af slysinu mannskæða rifjuð upp. Snemma, morguninn eftir verður gengið frá Flateyri um Klofningsheiði til Súgandafjarðar. Skúlamálin verða rifjuð upp á vettvangi atburðanna.

Daginn eftir verður ekið til Skálavíkur og gengið áleiðis á Galtarvita sem er úr alfaraleið þar sem hann stendur við Keflavík. Ólafur Jónasson leikmyndasmiður ræður ríkjum í vitanum ásamt Díönu Júlíusdóttur. Þau taka á móti gestunum. Þeir eru ekki margir sem hafa lagt leið sína þangað. Vandinn er sá að oft er ófært af sjó þar sem vitinn stendur við opið haf. Fært er að vitanum af landi á þrjá vegu. Hægt er að fara frá Skálavík og ganga fjöruna undir Öskubak um ófæru. Sú leið er torfarin og helst fyrir kunnuga. Önnur leið er frá Norðureyri við Súgandafjörð fyrir Gölt. Þar þarf helst að gæta sjávarfalla. Þriðja leiðin er frá Skálavík og upp Bakkaskarð og þaðan niður í Keflavík. Það er leiðin sem fyrir valinu varð. Farið er um elstu fjöll á Íslandi.

Flateyringurinn Reynir Traustason fararstjóri mun leiða fólk um veröld trölla, álfa og huldufólks og stjórna dagskránni á ferðalaginu. 

Dvalið verður í Keflavík í tvær nætur. Víst er að enginn verður svikinn af dvölinni sem mun einkennast af stuði og skemmtilegum, krefjandi gönguferðum. Ferðinni lýkur svo með því að gengur verður aftur til baka um Bakkaskarð og til Skálavíkur. 

LEIÐARLÝSING

1.d., miðvikud. Þátttakendur koma sér fyrir í svefnpokagistingu í Holti í Önundarfirði.

2.d. Ekið til Flateyrar og gengið þaðan um miklar örlagaslóðir yfir Klofningsheiði til Suðureyrar. Svokallað Skúlamál, dularfullt mannslát árið 1891, rifjað upp og vettvangur heimsóttur. Þetta var Geirfinnsmál þess tíma og hafði gríðarlegar pólitískar afleiðingar. 11 km. Hækkun 600 m. Göngufólk ferjað til Flateyrar þar sem boðið er upp á matarmikla kjötsúpu á Bryggjukaffi.

3.d. Ekið frá Önundarfirði um Bolungarvík til Skálavíkur. Gengið þaðan um Bakkaskarð og að Galtarvita. 6 km. Hækkun 500 m. Kvöldvaka þar sem Óskars Aðalsteins, rithöfundar og vitavarðar, verður minnst. Gist í svefnpokum í vitavarðarbústaðnum og sjálfum vitanum þar sem þröngt mega sáttir sofa.

4.d. Gengið á Gölt. Rölt um Keflavík þar sem fornar minjar verða skoðaðar. Lífsins notið við ysta haf. Gufubaðið opið að kveldi. Kvöldvaka með tilheyrandi söng.

5.d. Gengið upp Sunndal um slóðir álfa og huldufólks þar sem hlustað verður eftir söng álfanna. Gengið á Öskubak og um Bakkaskarð til Skálavíkur þar sem ferðinni lýkur. 


Brottför/Mæting
Að kvöldi 26. júlí að Holti í Önundarfirði

Almennt verð: 65.000 kr.
Félagsverð: 60.000 kr.


INNIFALIÐ:
Gisting, kjötsúpa og fararstjórn



Reynir Traustason

Fararstjóri

Starfsheiti
Mobile 820 5200

Reynir Traustason býr í Mosfellsbæ í skjóli Úlfarsfells. Hann er fæddur á Búrfelli í Hálsasveit en alinn upp á Flateyri frá fimm ára aldri. Hann var sjómaður í 25 ár, með skipstjórnarréttindi á öll fiskiskip og starfaði sem skipstjóri til ársins 1994. Þá var hann formaður í hagsmunafélagi skipstjóra og stýrimanna á Vestfjörðum í sex ár.

Reynir var blaðamaður og ritstjóri frá 1994-2017. Ritstjóri á tímaritinu Mannlífi, tímaritinu Ísafold og DV, blaðamaður á Stundinni og sjálfstætt starfandi rithöfundur sem hefur skrifað níu bækur. Sú nýjasta er Fólk á fjöllum sem kom út árið 2016.

Reynir hefur gengið á rúmlega 1700 tinda síðan árið 2011, þar af 1000 sinnum á Úlfarsfell. Hæsta fjallið sem hann hefur gengið á er Mont Blanc sem hann toppaði árið 2013. Hann tók þátt í 52ja fjalla verkefni Ferðafélags Íslands og hefur leitt, ásamt fleirum, lýðheilsuverkefnið Fyrsta skrefið og Næsta skrefið.

Reynir hefur síðustu ár starfað sem skálavörður í Norðurfirði á Ströndum og starfað sem fararstjóri í sérferðum Ferðafélags Íslands á Ströndum og Vestfjörðum.

Ómissandi í bakpokann

Suðusúkkulaði og þæfðu ullarvettlingarnir frá Dóru.

Uppáhalds leiksvæði

Úlfarsfellið í fyrsta sæti en Strandafjöll í víðara samhengi.






« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31