A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
24.04.2016 - 21:00 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson

Gamla myndin: - Víðlesnir og gagnmenntaðir menn í lífsins skóla

Guðmundur Friðgeir til vinstri og Guðmundur Sören til hægri. Steyptir brúarstöplarnir standa enn á sínum stað ásamt hluta af brúarhandriðinu. Stálbitarnir úr brúnni mara í hálfu kafi í ánni.  Ljósm.: H. S.
Guðmundur Friðgeir til vinstri og Guðmundur Sören til hægri. Steyptir brúarstöplarnir standa enn á sínum stað ásamt hluta af brúarhandriðinu. Stálbitarnir úr brúnni mara í hálfu kafi í ánni. Ljósm.: H. S.

Bræðurnir Guðmundur Sören Magnússon (f. 8. október 1922 – d. 15. desember 2009) og Guðmundur Friðgeir Magnússon (f. 2.5. 1927 - d. 22.6. 2004) standa hér við brúna yfir Langá í Keldudal. Hún var byggð upp úr 1940 og var mjög vönduð göngubrú fyrir nemendur Keldudalsskóla, sem sést í baksýn. Skólinn sá var byggður sumarið 1910. Hann kostaði 2,244,48 kr. samkvæmt gjörðabók hreppsnefndar Þingeyrarhepps. Ekki er vitað hver sá um bygginguna.

   Guðmundur Sören og Guðmundur Friðgeir voru víðlesnir og fjölmenntaðir menn sem aldrei sátu á skólabekk nema í örfáa daga í farskólanum í Keldudal. Þá tíðkaðist svokölluð skiptikennsla: Nemendur voru hálfan mánuð í skólanum og hálfan mánuð heima. Og sett fyrir sem kallað var. Og hlýtt yfir af kennaranum þegar í skólann kom aftur. Þrautreynt fyrirkomulag, nú niður lagt, sem skapaðist af aðstæðum. Mætti sem best nota aftur í einhverju formi.

   Þeir bræður fylgdust gjörla með samferðamönnum sínum og kunnu vel að segja frá. Þeir gengu báðir hægt um gleðinnar dyr. Glaðlyndur húmor í góðum hópi einkenndi þá báða.  Eiginkona Guðmundar Sören, Kristín Gunnarsdóttir, sem lifir mann sinn, var lífsgæfa hans ásamt öllum börnunum. Guðmundur Friðgeir kvæntist ekki.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31