05.01.2009 - 02:08 | bb.is
Gámaþjónusta Vestfjarða býðst til að styrkja Vegagerðina
Gámaþjónusta Vestfjarða hefur boðið Vegagerðinni að gjöf olíu á hefil stofnunarinnar svo hægt sé að moka Dynjandisheiðina. Auk þess buðu Gámaþjónustumenn Vegagerðinni að þeir gætu mokað fyrir stofnunina ef þeir fengu hefilinn lánaðan. Að sögn Ragnars Ágústs Kristinssonar, framkvæmdastjóra Gámaþjónustunnar, kvaðst Vegagerðin ekki geta þekkst boðið. „Dynjandisheiðin er jeppafær en það eru einungis um þrír skaflar sem eru til trafala og heiðin er að öðru leiti fær. Það myndi því ekki þurfa mikið til að geta opnað hana", segir Ragnar en Gámaþjónustan þjónustar suðursvæði Vestfjarða og því kemur það sér mjög illa að ekki verði byrjað að moka Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar fyrr en 20. mars.
Ragnar bætir við að Hrafnseyrarheiðin sé fær þó á henni sé hálka. „Ef hún hefði verið skafin með ísblöðum þá væri hún vel fær núna."
Í DV skömmu fyrir áramót var haft eftir G. Pétri Matthíassyni, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar að stofnunina skorti fé til þess að geta opnað fjallvegi á milli suður- og norðurfjarða Vestfjarða. „Vetrarþjónustan hefur ekki fengið mikið fé á undanförnum árum og því síður í núverandi árferði. En við skiljum Vestfirðinga vel," segir G. Pétur við DV aðspurður af hverju ekki væri búið að opna milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða. „Íbúar á svæðinu ættu að reyna að setja þrýsting á þá sem ráða þessu að tryggt verði að þessir hlutir verði í lagi, enda á svæðið í vök að verjast", segir Ragnar.