Gamanmyndahátíð Flateyrar haldin í fyrsta sinn
Gamanmyndahátíð Flateyrar verður haldin í fyrsta sinn helgina 25.-28. ágúst 2016.
Þar verða sýndar tæplega 30 íslenskar gamanmyndir auk fjölda annara viðburða. Þar ber hæst heimsfrumsýningu á nýrri "sing-along" útgáfu af hinni sívinsælu söngvamynd Með allt á hreinu. Ágúst Guðmundsson leikstjóri myndarinnar ætlar að fylgja henni úr hlaði og láta flakka áður ósagðar sögur frá gerð myndarinnar. Þá er aldrei að vita nema að einhverjir Stuðmenn láti sjá sig líka. Auk þess ætlar Hugleikur Dagson að mæta vestur og frumsýna fyrsta þáttinn í nýrri seríu:Hulla 2.
Dagskrá hátíðarinnar má sjá hér.
Alls verða fimm nýjar íslenskar gamanmyndir frumsýndar á hátíðinni:
Aukaleikarar (Emil Alfreð Emilsson),
Mellon (Sveinbjörn Óli Ólason),
Nöllið (Önundur Pálsson),
Skuggsjá (Magnús Ingvar Bjarnason)
og Himinn og jörð (Aron Þór Leifsson).
Hugmyndin að hátíðinni vaknaði þegar Eyþór Jóvinsson og Ársæll Níelsson sátu saman á annari kvikmyndahátíð þar sem dramatíkin og þunglyndið var gjörsamlega að gera útaf við áhorfendur, þar til fyrsta og eina gamanmyndin þann daginn var sýnd, og salurinn lyftist allur upp. ,,Þar kviknaði hugmyndin um að reyna að búa til skemmtilega kvikmyndahátíð, þar sem gamanið ræður för," segir í kynningartexta.
Gamanmyndir þykja oft ekki nógu fínar og fágaðar fyrir hina alvarlegu kvikmyndagerð, þar sem þungnar dramatískar sögur ráða oft för. Því er þessari hátíð ætlað að gera gamanmyndum hátt undir höfði með því að skapa skemmtilega kvikmyndahátíð, þar sem gleðin ræður ferðinni.
Gamanmyndahátíðin á Flateyri fer fram víðsvegar í þorpinu, í samkomuhúsinu, Sundlauginni, á Vagninum og í Tankinum. Tankurinn er 90 ára gamall bræðslutankur og í því óvenjulega sýningarrými mun stærsti hluti hátíðarinnar fara fram.
Hátíðin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og Kvikmyndamiðstöð Íslands og er því ókeypis er á alla viðburði hátíðarinnar, að frátöldu sveitaballinu með hljómsveitinni Greifunum, sem mun nú í fyrsta sinn spila á Flateyri.