A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
26.06.2016 - 15:48 | Vestfirska forlagið,Halla Lúthersdóttir,Ferðablaðið Vestfirðir

Gallerí Koltra á Þingeyri

Gamla Salthúsið á Þingeyri. Ljósm.: BIB
Gamla Salthúsið á Þingeyri. Ljósm.: BIB
« 1 af 7 »

Handverkshópurinn Koltra var stofnaður 1995 og er því með elstu handverkshópum á Vestfjörðum. Koltra er staðsett á Þingeyri og dregur nafn sitt af Kolturshorni sem sést mjög vel í Haukadal í Dýrafirði.

Tilgangur með stofnun handverkshópsins var að hjálpa meðlimum hópsins og heimamönnum að koma sínum munum á framfæri og hefur það gengið vonum framar.

Handverkshópurinn Koltra stofnaði fljótlega Gallerí Koltru sem selur muni meðlima handverkshópsins. Gallerí Koltra hefur verið staðsett Gallerí Koltra á hinum ýmsu stöðum innan Þingeyrar, þar á meðal í grunnskólanum, gamla kaupfélaginu og fyrrum póst- og símstöð.

Í dag er Gallerí Koltra sem og upplýsingamiðstöð ferðamanna staðsett í gamla Salthúsinu sem er jafnframt elsta hús Þingeyrar og ein hin mesta prýði Þingeyrar. Gefur því að skilja að húsið á sér langa sögu.

Salthúsið er byggt 1778 á árum dönsku konungsverslunarinnar og var húsið í eigu hennar til 1787 og þjónaði þá þeim tilgangi sem nafn þess dregur af. Frá 1787 var verslun rekin í Salthúsinu allt til ársins 1927 af hinum ýmsu verslunareigendum. Í framhaldi eignast Kaupfélag Dýrfirðinga húsið frá 1930 til 1994 þegar það var afhent Húsafriðun Ríkisins til varðveislu, þá tók Ísafjarðarbær við varðveislu þess. Húsið var þá tekið niður og endurbyggt á sínum upprunalega stað 2009 og 2010 taldist verkið fullunnið. Höfðu þá heimamenn áhyggjur af því hvaða hlutverki húsið skyldi gegna en það er nú komið í það fallega hlutverk að miðla hannyrð- um Dýrfirðinga og upplýsingum til ferðamanna og sveitunga.

Gallerí Koltra er tilgreind sem svæðisupplýsingamiðstöð ferðamanna í Dýrafirði og getur ferðamaðurinn sótt sér upplýsingar um svæðið, áhugaverða staði hvort sem leiðin liggur norður eða suður fyrir hjá starfsmönnum Koltru sem þekkja sitt heimasvæði og þó víðar væri leitað mjög vel.

Dýrfirsku handverksfólki er ýmislegt til lista lagt

Að ýmsu er að huga þegar gengið er inn í Salthúsið þegar handverksfólk svæðisins hefur komið sér fyrir og sínum munum. Í anda húsins er að finna vattasaum sem verður að teljast ein elsta handverksaðferð með ull á Íslandi þó víðar væri leitað. Unnar leðurvörur með tilvísun í heiðni prýða hillur sem og leðurvörur með keltnesku mynstri sem seint er hægt að telja ekki hluta af uppruna okkar Íslendinga.

Listaverk unnin úr rekaviði, sandi og skeljum fær ferðamanninn til að falla í stafi, hvernig er hægt að vinna þetta úr náttúrunni og skapa þessa list. Ferðamaðurinn tengir náttúruna við sköpunargáfu og þá orku sem hægt er að sækja úr henni.

Skartgripir unnir úr þara úr fjörum Dýrafjarðar eru einstakir munir sem einir og sér gera heimsókn í Koltru vel þess virði. Hugmyndaauðgin er greinilega framúrskarandi við fallegan fjörð með tignarlegum fjöllum. Síðast en alls ekki síst er að finna prjónavörur af ýmsum uppruna og skeiðum Íslandssögunnar, mynstur í lopa sem hægt er að rekja til landnáms alveg til mynsturs sem vísa í hraða dagsins í dag.

Að þessu upptöldu hlakkar handverksfólk Dýrafjarðar og nágrennis til heimsóknar ykkar í Gallerí Koltru enda tekur Dýrafjörður og Þingeyri ávallt vel á móti gestum. Gallerí Koltra er opin yfir sumartímann og samkvæmt samkomulagi.

 

Halla Lúthersdóttir

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31