Leikritið Galdrakarlinn í Oz er án efa meðal vinsælustu barnaleikrita sem sýnd hafa verið hér á landi.
Hið 111 ára gamla, en ávallt ferska íþróttafélag, Höfrungur á Þingeyri er að hefja enn eitt ævintýrið. Nú er það leikdeild félagsins sem ætlar að spretta úr spori en hún hefur vakið mikla athygli síðustu ár, nú síðast fyrir uppsetningu á Línu Langsokk sem þótti sérlega skemmtileg og vel heppnuð. Áfram skal haldið og nú á að setja á fjalirnar annað sígilt og sívinsælt verk, nefnilega Galdrakarlinn í Oz. Æfingar hefjast 31. janúar og stefnt er að frumsýningu 21. mars í Félagsheimilinu á Þingeyri. Rétt er að geta þess að Galdrakarlinn í Oz verður einnig á fjölunum um páskana.
Leikritið Galdrakarlinn í Oz er án efa meðal vinsælustu barnaleikrita sem sýnd hafa verið hér á landi og raunar í heiminum öllum enda er hér á ferðinni mikið ævintýri þar sem fjöldi listamanna kemur við sögu. Leikdeild Höfrungs boðar því til sérstaks kynningarfundar um þetta metnaðarfulla verkefni laugardaginn 31. janúar kl. 11 í húsi Björgunarsveitarinnar Dýra á Þingeyri. Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta því mörg eru hlutverkin ekki bara á leiksviðinu heldur og í kringum allt ævintýrið og vantar listamenn í allar stöður, leikara, leikmyndasmiði, tæknifólk, búningahönnuði og saumafólk, ritstjóra leikskrár, auglýsingastjóra og ekki má gleyma miðasöludeildinni.
Leikstjóri sýningarinnar er Elfar Logi Hannesson sem leikstýrði Línu Langsokk í fyrra.