A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
02.08.2017 - 07:31 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason,bb.is

GÖNGUHÁTÍÐ Í SÚÐAVÍK

Hinn tignarlegi Kofri.
Hinn tignarlegi Kofri.
« 1 af 3 »

Gönguhátíð verður haldin í Súðavík um verslunarmannahelgina og er hún ætluð fyrir fólk á öllum aldri.

Hátíðin er haldin í samvinnu Súðavíkurhrepps, Göngufélags Súðavíkur, gönguklúbbsins Vesens og vergangs og Eyvindar ehf. Í göngunum gefst fólki kostur á að fara um vestfirskt landslag í fylgd heimamanna, þar sem sagt verður frá örnefnum og sagðar sögur sem tengjast landslaginu og lífinu á svæðinu fyrr og nú.

Stefnt er á morgun-, miðdegis-, síðdegis- og kvöldgöngur á hina ýmsu staði í Álftafirði og nágrenni í fallegu landslagi við Ísafjarðardjúpið. Í undirbúningi eru göngur á Kofra, í Valagil, úr Skötufirði yfir í Heydal, um Hvítanes í Skötufirði, um Skákina milli Sauradals og Arnardals, upp í Naustahvilft, á Sauratinda og um Þjófaskörð á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

Auk þess verða skipulagðar styttri göngur í þorpinu sjálfu og hægt að fara í göngur á svæðinu og nota Wapp – Walking app leiðsagnarappið í símanum.

 

Þjónustuborð verður í Álftaveri alla gönguhrelgina.

Fimmtudagur 3. ágúst

Off venue

Kl. 20:00 Tónleikar á Melrakkasetrinu. 

Föstudagur 4. ágúst

Kl. 17:00 Fjölskylduganga í Valagil í Seljalandsdal, í Álftafirði (einn skór)
Keyrt frá Kaupfélagsplaninu inn í botn Álftafjarðar og lagt á bílastæði á Seljalandi en þar búið fram til 1972-4. Tvíþætt ganga – annars vegar styttri ganga að Valagili og hins vegar áfram og upp með gljúfrunum. Það hefur lengi verið vinsælt að ganga í hið fallega Valagil og sem flestir hvattir til að koma með og hlusta á söguna af Bóthildi. Barði Ingibjartsson leiðsegir.

Kl. 20:00 Tælensk matarveisla á Jóni Indíafara og tónleikar. 

Laugardagur 5. ágúst

08:00-10:00 Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti, rjúkandi kaffi og smurðar bollur.
Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap.

Skammturinn er á kr. 500. Einnig verður hægt að fá brauð og með því.

09:00 Gömul þjóðleið úr Skötufirði og yfir í Heydal í Mjóafirði (tveir skór)
5-6 tíma ganga úr Grafarskarði í Skötufirði og i yfir heiðina í Heydal í Mjóafirði. Leiðsögn: Barði Ingibjartsson.
Fólk kemur saman í Kaupfélaginu í Súðavík og sameinast í bíla. Svo er keyrt af stað kl. 9 í Skötufjörð á upphafsstað göngu og lagt í hann upp Grafarskarðið. Öðru hvoru verður svipast um eftir hvölum í Skötufirði enda ekki óalgengt að sjá hnúfubak eða hrefnu bregða fyrir um þetta leyti. Gengið er upp á heiði sem er ekki mjög grýtt og frekar þægileg yfirferðar miðað við margar vesfirskar heiðar. Áður en varir blasir Heydalurinn við og að endingu er gengið niður meðfram Bæjargili að hótelinu í Heydal þar sem Stella tekur á móti hópnum með góðum veitingum sem eru innifaldar í verðinu. Eftir veisluhöldin verður hópnum skutlað aftur að bílunum í Skötufirði. Innifalið: leiðsögn, veitingar í Heydal og skutl aftur í Skötufjörð. Hámarksfjöldi 22. Hækkun 600 m, 15 km, 5-6 tímar. 
Kl. 9 Skákin úr Sauradal í Arnardal (tveir skór)
Það er vel þekkt að fara Skákina á milli Sauradals og Arnardals og skyggnast um leið bak við þekkt fjöll. Dalirnir eru báðir grösugir og skiptast á móar og mýrarsvæði en Skákin sjálf er frekar grýtt og þar verður farið rólega, sérstaklega Arnardalsmegin þar sem hún er brattari. Við tökum rútu frá Kaupfélaginu í Súðavík og hefjum göngu Arnardalsmegin. 
Hækkun 500 m, 13 km, 4-5 tímar. Leiðsögn: Steinn Kjartansson

Kl. 14 Afmælisdagskrá Geisla.. Dagskráin verður í Samkomuhúsinu í samvinnu við Ungmennafélagið Geisla sem á stórafmæli. Vegleg dagskrá þar sem ungir sem aldnir skemmta sér saman.

Kl. 17 Síðdegisganga um þorpið – einn skór.

Fjallað um þætti úr sögu Súðavíkur m.a. fyrstu hvalveiðistöðina á Íslandi á Langeyri, svæðið þar sem snjóflóðið féll 16. janúar 1995, Raggagarð og fleira.

 Kl. 22 Afmælisdansleikur Geisla í Samkomúsinu. 

Sunnudagur 6. ágúst

08:00-10:00 Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti, rjúkandi kaffi og smurðar bollur.
Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Skammturinn er á kr. 500. Einnig verður hægt að fá brauð og með því.

09:00 Seljalandsdalur – Þjófaskörð – Heiðarskarð - Syðridalur, 2 skór.
Hist við Kaupfélagið í Súðavík og sameinast í bíla og keyrt af stað kl. 9 yfir á Ísafjörð. Þeir sem mæta á Ísafirði koma á bílaplanið við Bónus kl. 9:30. 
Þetta er gömul leið á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.
Vegalengd: 17 km, hækkun ca 300 m, göngutími: 6 tímar. 
Leiðsögn: Rúnar Eyjólfsson

Kl. 9 Ganga á Sauratinda (856m) (tveir skór) – Anna Lind
Hringferð. Farið upp Traðargilshvilft og þaðan áfram upp á Sauratinda, haldið áfram innyfir og niður á Skák og gengið niður Sauradal til baka. Nokkuð á fótinn en hæf fyrir flesta í sæmilegu ástandi og útsýnið svíkur engan. 
Vegalengd: 8km/850 m hækkun. Göngutími: 5 tímar. 
Leiðsögn:Anna Lind Ragnarsdóttir

11:00 Söguganga upp í Naustahvilft
Gangan upp í Naustahvilft er við flestra hæfi og útsýnið yfir Skutulsfjörðinn og Ísafjarðarbæ svíkur engan. Sagðar verða nokkrar sögur og þátttakendur kvitta í gestabókina í hvilftinni. 
Vegalengd: ca 1-2 km
Hækkun: 220 m
Göngutími: 1-2 tímar með stoppum
Leiðsögn: Ísfirðingur.

12:00 Selaskoðun á Hvítanesi í Skötufirði (einn skór)
Kristján Kristjánsson frá Litlabæ segir af selum og lífinu á Hvítanesi í Skötufirði. Kristján er fæddur og uppalinn á Litlabæ og hefur búið á Hvítanesi í rúm 40 ár. Rölt verður um fjörur í kring, selir skoðaðir og kannski sést til hvals. Verð fyrir manninn er kr. 1.000 og innifalið kaffi, te eða kakó og heit vaffla að hætti Sigríðar í Litlabæ. Veitingarnar verða í lok gönguferðarinnar. Sama verð er fyrir börn og fullorðna. 
Létt ganga og við allra hæfi ca 2 km og 1 - 2 tímar (fer eftir veðri).


Mánudagur 7. ágúst

Kl. 9 Morgunganga á Kofra (635m) (tveir skór)
Í fylgd með Önnu Lind Ragnarsdóttur og Barða Ingibjartssyni, en líklega hefur enginn (lífs eða liðinn) gengið oftar á Kofrann en Barði. Barði verður með sögustund á toppnum um kraftinn í Kofra. Hámark 30 manns. 
Vegalengd: 3 km. Hækkun 600 m, Göngutími: 4-5 tímar. 
Leiðsögn: Anna Lind Ragnarsdóttir og Barði Ingibjartsson.

Réttur er áskilinn til að breyta um áætlun vegna veðurs. Ef aðstæður eru varasamar á fjöllum, verður boðið upp á láglendisgöngur í staðinn.

 

Verð í styttri göngur er kr. 1500.
Verð í lengri göngur er kr. 4000 (rúta innifalin) – en kostar kr. 2000 ef viðkomandi er með gönguarmband.
Verð á gönguarmbandi sem gildir í styttri göngur kr. 5.000 ( Innifalið er gisting á tjaldsvæði ).


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31