GETUR EKKI HÆTT
Fréttaritari RÚV á Vestfjörðum, Halla Ólafsdóttir, var með skemmtilegt innslag í fréttum í gærkvöld af bókaupplestri í sundlaug Þingeyrar, svo sannarlega frumlegt uppátæki. Þar var meðal annars rætt við Hallgrím Sveinsson sem hefur um árabil verið afkastamikill bókaútgefandi og hans vestfirska forlag lagt áherslu á vestfirskar bókmenntir.
Nýverið kom út bókin Vestfirðingar til sjós og lands – gaman og alvara fyrir vestan en það eru sögur sem Hallgrímur hefur sjálfur tekið saman. Um bókin segir Hallgrímur:
„Bókin hefur að geyma ýmsar frásagnir af Vestfirðingum, lífs og liðnum. Tilgangurinn: Að vekja athygli og áhuga á Vestfjörðum og innbyggjurum þeirra fyrr og síðar. Til þess var Vestfirska forlagið einmitt stofnað. Kannski bara af hugsjón. En ekki til að græða peninga.
Margir telja að Vestfirðingar séu að sumu leyti svolítið öðruvísi en aðrir landsmenn. Má vel merkja það í þessari bók. Nægir þar að nefna kraft þeirra, áræði og ósérhlífni að ógleymdri hjálpseminni. Manngildið frekar metið í dugnaði en peningum. Og gamansemin er þeirra lífselexír. Svo segja sumir gárungar að þegar Vestfirðingar eru hættir að geta rifið kjaft, séu þeir endanlega búnir að vera. En það er nú kannski ofsagt! „
Hallgrímur hefur marglýst því yfir að hann sé hættur í bókaútgáfu en engu að síður koma út fleiri og fleiri bækur og á árinu 2017 voru þær átta.
Hér má nálgast frétt RUV af syndum lestrarhestum á Þingeyri.