Fyrirtæki sýna því áhuga að starfa á Flateyri og Þingeyri
Vel er tekið í þá hugmynd að binda aflaheimildir við sjávarbyggðir í vanda.
Áþekkar hugmyndir hafa komið fram áður.
Sú lausn að binda aflaheimildir við einstakar sjávarbyggðir er líklegri til að leysa vanda þeirra til lengri tíma en byggðakvóti. Vandi Vestfjarða við að styrkja sjávarútvegsfyrirtæki í fjórðungnum felst m.a. í skorti á flugvelli sem gæti annast fraktflutninga.
Á þetta tvennt, ásamt fleiru, minnist Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, spurður um þá hugmynd Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, að vandi sjávarbyggða kalli á að það verði skoðað í fullri alvöru að binda þar aflaheimildir í því skyni að tryggja atvinnuöryggi íbúa.
Lilja Rafney viðraði þessa hugmynd í viðtali við ruv.is en hún hefur skrifað þingmönnum kjördæmisins bréf og vill funda með þeim vegna stöðu atvinnumála á Þingeyri og Flateyri ásamt öðrum sem málið snýr að.
Eins og kunnugt er verður starfsemi Vísis á Þingeyri úr sögunni um mánaðamótin. Þá úthlutaði Byggðastofnun ekki kvóta til fyrirtækja sem gerðu með sér samkomulag um áframhaldandi fiskvinnslu í bæjarfélögunum.
"Sú hugmynd hefur líka verið rædd að binda aflaheimildir við einstakar vinnslur. Já, það má vel skoða þennan möguleika að binda kvóta við byggðir en það þarf þá að greina hvað hefur tapast síðan 1991 þegar lögin voru endanlega fest í sessi," segir Gísli Halldór og nefnir að bæjaryfirvöld hafi gert eitt og annað við að styrkja innviðina í sveitarfélaginu
- en til þess að sú vinna nýtist þurfi eitthvað til að standa á. Á Vestfjörðum sé það sjávarútvegur og það breytist ekki á næstu árum. Hann nefnir jafnframt inniviði greinarinnar til að vekja frekari áhuga fyrirtækja á að byggja upp til framtíðar. Flugvöllur til að annast vöruflutninga, eins og síkvikt umhverfi greinarinnar kallar á, sé þar ofarlega á blaði.
Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar,
segir að stofnunin vinni samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Stefnt sé að því að fá útgerðarmenn í samstarf um byggðaeflingu. Fyrirtækin sem fái byggðakvótann sem Byggðastofnun hefur til umráða frá ríkinu taki ákveðin skref til að efla byggðina. Þessi samvinna hefur tekist giftusamlega á ýmsum stöðum; Tálknafirði, Suðureyri og Raufarhöfn.
Þvert á umræðuna minnir Þóroddur á að Byggðastofnun úthlutar ekki byggðakvóta, heldur auglýsir í opnu og gegnsæju ferli eftir samstarfsaðilum. Þau fyrirtæki sem hafi sýnt áhuga á því að hefja samstarf á Flateyri og Þingeyri hafi annaðhvort ekki staðist kröfur stofnunarinnar eða dregið umsóknir sínar til baka.
"Nú hafa hins vegar nokkrir aðilar sótt um aflaheimildirnar, og það eru meiri líkur en minni að við náum viðlíka árangri og þar sem þetta hefur gefist best. Þessi spurning um að binda aflaheimildirnar hefur komið upp áður; að taka t.d. fimm prósent af kvótanum í félagslegar aðgerðir. Taka upp strandveiðikerfi sem bundið er við ákveðna staði. Þetta væri djarft, og væri hægt. Um meiri handstýringu er að ræða í dag
- efla byggð með því að einkaaðilar leggi fjármagn í það," segir Þóroddur og bætir við að aðgerðir Byggðastofnunar hafi gefist best þar sem menn hafa komið að vandanum áður en allt var farið á versta veg.
Fréttablaðið þriðjudagurinn 13. janúar 2015.