Fréttir af Dýrafjarðargöngum
Baldvin Jónbjarnarson sem fer fyrir framkvæmdaeftirliti Dýrafjarðarganga sendir líkt og fyrr samantekt af því helsta sem gerst hefur í vikum 45-46 við vinnu Dýrafjarðarganga.
Sem fyrr var unnið við uppsetningu á einangrunarklæðingu til vatnsvarna í göngunum ásamt því að haldið var áfram að sprautusteypa yfir klæðingarnar
Miðvikudaginn 13. október var fjórtánda og síðasta steypufæran í vegskálanum í Arnarfirði steypt og er þá búið að steypa báða steypuskálana. Í framhaldinu verður haldið áfram með uppsteypu á tæknirýmum í göngunum. Haldið var áfram með fyllingar yfir vegskálann í Dýrafirði.
Í Dýrafirði var áfram unnið við niðurlögn á vegræsum og gröft á skeringum. Að auki var haldið áfram með niðurlögn á neðra burðarlagi í veginn og var keyrt í rúmlega 1 km kafla og er þá búið að setja neðra burðarlag á rúmlega 3 km kafla í Dýrafirði en vegurinn Dýrafjarðarmegin er tæplega 5 km langur auk hliðarvega.
Á meðfylgjandi myndum má sjá neðra burðarlag ofan á undirfyllingu, fyllingu yfir vegskálann í Dýrafirði, vinnu við skeringar í Dýrafirði, vegskálann í Arnarfirði ásamt innra mótinu fyrir utan munnann og heilklæddan kafla í göngunum tilbúinn til ásprautunar.