Frétt dagsins - Formúlan að svokölluðum rykhraða er nú fundin
Nú hafa dýrfirskir spekingar loks fundið upp formúluna að svokölluðum rykhraða á vegum með óbundnu slitlagi.
Formúlan er svona =A í öðru veldi +B í þriðja veldi = 45 km meðalhraði á klst. Þetta þykir náttúrlega dálítið sérstakt, en er samt sem áður staðreynd.
Tökum sem dæmi bifreið sem ekur á 90 – 100 km hraða á vegi sem er skraufþurr af margra vikna þurrki. Hann sendir líklega út í andrúmsloftið nokkur kg af ryki á hvern ekinn km. Sem er náttúrlega ekkert annað en ofaníburður, sá fínasti úr veginum.
Bifreið sem aftur á móti ekur á 45 km meðalhraða sendir sama og ekkert út í andrúmsloftið af ofaníburði. Þið ættuð að prófa þetta sjálfir lesendur góðir. En kannski liggur okkur alltaf svo mikið á að við megum ekkert vera að því að spekúlera í svona löguðu!
En væri ekki í lagi að slá aðeins af? Sérstaklega ef maður er nú í sumarfríi!
Hallgrímur Sveinsson.