Framvinda Dýrafjarðarganga í viku 18
Aðstæður í göngum eru góðar og lengdust göngin í s.l. viku um 93,9 m. Lengd ganga nú er þá orðin 2.120,4 m sem er um 40% af heildarlengd ganga. Í aprílmánuði lengdust göngin um 287 m en að auki voru grafnir 49,5 m í hliðarrýmum í útskoti E.
Til gamans má geta þess að í metvikunni, viku 17, þegar göngin lengdust um 105 m voru alls sprengdar 21 færur og var meðallengd hverrar færu 5 m. Stysti tími á milli sprenginga var 6 klst og 16 mín og meðaltími á milli sprenginga í þeirri viku var rétt rúmlega 7 klst.
Auk vinnu við gröft ganga er unnið að vegagerð frá munna og í átt að Hófsá þar sem efni úr göngunum er keyrt í vegfyllingar og einnig hófst vinna í lok vikunnar á skeringarsvæði austan Mjólkár. Þá hefur lausgröftur í forskeringu Dýrafjarðarmegin gengið vel og er verktaki að hluta til byrjaður á bergskeringum en það hefur verið gert hingað til með rippun. Efni úr forskeringu hefur að hluta til verið notað til uppbyggingar á aðstöðuplani í Dýrafirði.