A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
Eva Pandora Baldursdóttir, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunnar
Eva Pandora Baldursdóttir, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunnar

Verkefnið Öll vötn til Dýrafjarðar tekur nú flugið hér á Þingeyri en auglýst hefur verið eftir verkefnastjóra fyrir verkefnið. Öll vötn til Dýrafjarðar er yfirskrift verkefnisins um Brothættar byggðir og er á vegum Byggðastofnunnar. Tíu byggðarlög á landinu hafa hlotið brautargengi til þátttöku, þar af tvö nú á þessu ári og er Þingeyri eitt þeirra. Verkefnið Brothættar byggðir var fyrst sett á laggirnar sem tilraunaverkefni árið 2012 en í ljósi góðrar reynslu hefur verkefnið nú fest sig í sessi.

 

 

Grasrótarverkefni

Eva Pandora Baldursdóttir, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunnar, hefur unnið að verkefnum Brothættra byggða. Hún segir að verkefnið sé í raun grasrótarverkefni að því leyti að skipanir og skipulag kemur ekki að ofan. Íbúalýðræði sé virkjað og allir sem koma að verkefninu séu á sama plani. Verkefninu sé ætlað að valdefla íbúana en hlutverk Byggðastofnunnar sem yfirvalds sé aðeins að veita þau tól og tæki til samfélagsins sem þarf til að styðja við uppbyggingu. „Með því að virkja íbúalýðræði á þennan hátt er verið að tryggja að val og forgangsröðun sé á forsendum heimamanna“ segir hún.

Þegar byggðarlög eru metin varðandi þátttöku í verkefni Brothættra byggða er unnið eftir ákveðnum lýðfræðilegum mælikvörðum, t.d. íbúafjölda, aldurssamsetningu og kynjahlutfalli. Aðrir þættir sem litið er til eru landfræðileg staða og stærð, uppbygging atvinnulífs, tekjur byggðarlags sem og hversu langt íbúar þurfa að sækja næsta þjónustukjarna. Byggðarlögin tíu sem hlotið hafa brautargengi eiga því vissulega ýmislegt sameiginlegt. Eva segir þó skipti ekki minna máli að íbúarnir séu áhugasamir umverkefnið því verkefnið gangi ekki ef íbúarnir eru ekki virkir. 

 

 

Aðferðafræðin að baki

Þrátt fyrir að þau byggðarlög sem taka þátt í verkefninu eigi margt sameiginlegt eru mismunandi áherslur og þarfir innan hvers byggðarlags fyrir sig. Verkefnið er byggt upp í hverju byggðarlagi samkvæmt vilja og áherslum íbúanna en einkar rík áhersla er lögð á að vinna eins náið og mögulegt er með íbúunum. Eitt af fyrstu skrefunum innan verkefnisins er að halda íbúaþing þar sem íbúarnir sjálfir leggja til grundvallar hugmyndir að framkvæmdum og vinnu meðan á verkefninu stendur. Íbúaþing var haldið á Þingeyri í mars og var það bæði vel sótt og komu margar hugmyndir fram. Næsta verkefni er að ráða verkefnastjóra sem hefur það hlutverk, ásamt verkefnisstjórn að búa til og fylgja aðgerðaráætlun, leiða verkefnið með heimamönnum og vera milliliður milli verkefnastjórnar og íbúa. Meðal þeirra hlutverka sem verkefnastjóri sinnir er að veita aðstoð við styrkumsóknir, hugmyndavinnu, og að vera almennt í góðum samskiptum við íbúana.

Verkefnið Öll vötn til Dýrafjarðar er líkt og önnur verkefni Brothættra byggða til þriggja ára með möguleika á eins árs framlengingu. Á hverju ári er stöðumatsfundur með íbúum þar sem aðgerðaráætlun yfirfarin, en með því er reynt að tryggja íbúalýðræði sé fylgt eftir.

 

 

Jákvæðar afleiðingar verkefnisins

Hjá þeim byggðarlögum sem hafa lokið verkefnistíma Brothættra byggða, eða eru langt á veg komin, má sjá jákvæðar niðurstöður. Þar má nefna að langvarandi fólksfækkun hefur stöðvast og sumstaðar hefur jafnvel orðið fólksfjölgun. Atvinnulíf hefur einnig orðið stöðugra. Eva bendir á að þegar verkefnatímanum lýkur þarf verkefnið þó ekki að klárast heldur getur það færst af höndum Byggðastofnunnar t.d. yfir til sveitafélagsins. „Nú er Raufarhöfn að klára verkefnið en Raufarhöfn er ennþá að vinna að þeim markmiðum sem sett voru í verkefninu þar sem sveitarfélagið réð til sín manneskju til að halda verkefninu áfram.“

Eitt af því stórkostlega við verkefni Brothættra byggða segir Eva vera að sjá kraft og samtakamátt íbúa magnast upp og verða áþreifanlegan í formi framkvæmda. Hún nefnir Borgarfjörð Eystri sem dæmi þar sem íbúaþing var haldið í febrúar. Í kjölfar íbúaþingsins réðust íbúarnir í knýjandi verkefni, að þrýsta á stjórnvöld um malbikun fjallvegar sem tengir Borgarfjörð Eystri við nærliggjandi byggðarlög. Þar tóku íbúarnir sig saman og hófu að steypa veginn sjálfir sem táknræna aðgerð til að þrýsta á stjórnvöld að bregðast við þessari brýnu þörf sem skerðir svo mjög lífskjör fólksins í byggðarlaginu.

 

 

Hvað þarf að vera til staðar?

Samtakamátturinn er sterkara afl en fólk gerir sér oft grein fyrir, en það getur ekki alltaf virst hlaupið að því að sameinast um baráttumálin. Það þarf frumkvæði, sköpunargáfu, leiðtogahæfileika, seiglu og ákefð fyrir betrun samfélagsins. Eva segir mikinn styrk liggja í drífandi einstaklingum sem hafa ríka samfélagshugsun. „Slíkir einstaklingar geti skipt sköpum. Það eru oftast a.m.k. einn eða fleiri slíkir í hverju byggðalagi og það er ótrúlegt hvað getur gerst með þeim tólum sem veitt eru“ segir Eva. Hún segir ekki hægt að líta á verkefnið þeim augum að stjórnvöld séu að koma byggðarlaginu til bjargar heldur sé verið að liðka fyrir einstaklingsframtaki og samtakamætti í uppbyggingu með fjármagni, tæki og tólum. „Af því að þetta er grasrótarverkefni þarf vilji íbúanna að vera til staðar. Íbúarnir verða að vilja byggja upp sitt byggðarlag“ segir hún.

 

 

Fjármagn og styrkir

Árið 2018 mun Byggðastofnun veita 7 milljónum í verkefnastyrki til þeirra byggðarlaga sem þátttakendur eru í verkefninu, en frá upphafi hefur Byggðastofnun veitt í heildina 131 milljónum í styrki til frumkvæðisverkefna. Styrkir Byggðastofnunnar eru óhefðbundnir að því leiti að þeim er veitt í verkefni sem oft eru ekki styrkjahæf t.d. tækjakaup. Eva segir það að sjálfsögðu mikinn kost ef verkefnin eru atvinnuskapandi eða uppbyggjandi fyrir byggðarlagið en litið sé til fleiri þátta við styrkveitingarnar. Þó svo að einstaklingar hafi ekki getið tekið þátt í íbúaþinginu eru þeir ekki undanskildir þátttöku í verkefninu og geta allir sótt um verkefnastyrki. „Við erum með fjármagnið til að styrkja, en við getum ekki styrkt neitt ef það eru engar hugmyndir“ segir Eva.

Sem dæmi um vel heppnaðar styrkveitingar má benda á styrk sem veittur var á Raufarhöfn til kaupa á notuðum líkamsræktartækjum en líkamsræktarstöðin og gufubaðsklefinn sem sett var upp í kjölfarið hefur skipt samfélagið miklu máli og orðið rík viðbót við það sem fyrir var. Einnig má benda á styrk sem veittur var í vöruþróun á matvöru í Breiðadalshreppi en úr því verkefni hefur sprottið Breiðdalsbiti sem hlotið hefur brautargengi og er nú seldur víða um land.

 

 

Möguleikar og takmarkanir á Þingeyri

Aðspurð að því hvernig Þingeyri snúi við Evu, þ.e. hvaða takmarkanir og möguleikar blasi við segir hún að öll þau byggðarlög sem taka þátt í verkefninu um Brothættar byggðir búi við svipaðan vanda og er Þingeyri þar ekki undanskilin. Þátttaka á íbúaþinginu sem haldið var á Þingeyri hafi verið góð en jafnframt endurspeglað þær áskoranirnar sem Þingeyri er að glíma við, t.d. einsleita aldursskiptingu. Hún segir Blábankann vera gott dæmi um góða uppbyggingu í byggðarlaginu. Eftir stofnun Blábankans hafi orðspor Þingeyrar spurst út víða sem spennandi staðar í uppbyggingu sem vert sé að heimsækja og/eða fylgjast með.  „Það er ótrúlegt hvað Blábankinn virðist hafa haft áhrif á andann í bænum. Blábankinn er drífandi kraftur í samfélaginu. Ef Brothættar byggðir og Blábankinn ná að taka höndum saman er hægt að gera magnaða hluti á Þingeyri. Verkefnið býður upp á svo marga möguleika“ segir hún.  

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31