A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
21.11.2017 - 06:30 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

Framlög í Djúpveginn og Gamla konan í Vigur

Ögur í Ísafjarðardjúpi þar sem fundurinn var haldinn. Ljósm.: BIB
Ögur í Ísafjarðardjúpi þar sem fundurinn var haldinn. Ljósm.: BIB
« 1 af 2 »

Hér kemur einn góður úr bókinni 100 Vestfirskar gamansögur. Hún er nýkomin út og fæst í bókaverslunum um land allt. Svona voru stjórnmálafundirnir skemmtilegir hjá okkur “í gamla daga.“

 

Sigurður Bjarnason frá Vigur var um langa hríð þingmaður Norður-Ísfirðinga og átti hann tryggt fylgi Djúpmanna um áratuga skeið. Eitt sinn bauð Friðfinnur Ólafsson (Friðfinnur í Háskólabíó) sig fram á móti Sigurði fyrir Alþýðuflokkinn. Friðfinnur var frá Strandseljum í Ögursveit og því sveitungi Sigurðar. Hann var ekki hættulegur mótframbjóðandi en gerði þingmanninum afar gramt í geði og lífið leitt á framboðsfundum.

   Á fundi í Ögri sór Sigurður að hann skyldi láta hægri hönd sina ef Djúpvegurinn yrði ekki kominn til Súðavíkur fyrir næstu kosningar, en þá náði vegurinn einungis í botn Mjóafjarðar. Friðfinnur hafði hins vegar reiknað það út, að miðað við árangur og erfiði Sigurðar undanfarin ár yrði vegurinn ekki kominn til Súðavíkur fyrir aldamót og skaut hann þessu á Sigurð á fundinum. Sigurður taldi alveg víst að hann næði fjárframlögum í veginn. Sagði Friðfinnur Sigurð þá vera vindbelg og vantaði bara að stinga á honum til þess að hleypa úr honum loftinu.

   Nú var Vigurfólkinu, sem á fundinum var, nóg boðið. Bjarni faðir Sigurðar fór í pontu og hellti sér yfir Friðfinn. Einnig tóku til máls bræður Sigurðar, þeir Baldur og Björn og systurnar Þorbjörg og Sigurlaug og skömmuðu þau Friðfinn ótæpilega. Fundarstjórinn, Hafliði Ólafsson í Ögri, sagði því við Friðfinn, því nú þótti honum heldur farið að halla á bróður sinn: „Vilt þú ekki fá orðið núna, Friðfinnur?”

   Nei, svaraði Friðfinnur, en ætli hún þurfi ekki að segja eitthvað gamla konan í Vigur. 


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31