Framkvæmdir við stækkun Mjólkárvirkjunar að hefjast
„Það verður byrjað á fullum krafti og markmið er að klára að reisa veggina upp undir þak fyrir mánaðarmótin maí-júní. Við byrjum á því að saga gaflinn af stöðvarhúsinu og reisa upp falskan vegg til bráðbirgða. Þá verður grafið fyrir kjallaranum en það fer mikil vinna í að gera hann kláran undir vatnsrásina að túrbínunni. Áætlun gerir ráð fyrir að túrbínan verði hífð inn í húsið þann 15. júlí og ef það á standast er mikilvægt að steypuvinnunni sé lokið svo steypan nái að harðna. Þannig að við hefjum verkið með látum," segir Sveinn Ingi.
Samkvæmt útboðinu er verklok áætluð um mánaðarmótin september-október. Stöðvarhúsið verður lengt um 6,3 metra til að koma nýrri vélasamstæðu fyrir. Lengingin gerir það að verkum að hægt er að framleiða raforku með gömlu vélinni fram eftir sumri, en áætlað er að stöðva hana í byrjun ágúst. Þá gera áætlanir ráð fyrir að nýja vélin verði komin í rekstur um miðjan september.