21.07.2010 - 00:32 | JÓH
Framkvæmdagleði á Þingeyri
Dýrfirðingar hafa verið duglegir við að fegra sitt nánasta umhverfi í sumar enda hefur veðrið verið ákjósanlegt fyrir byggingar- og viðhaldsvinnu. Sumarið er rétt hálfnað en framkvæmdagleðinni er hvergi nærri lokið. Í kringum þó nokkur hús má sjá vinnupalla og menn að störfum, sem lífgar óneitanlega upp á Eyrina.
Veitingahornið ehf., sem er til húsa á Hafnarstræti 2, hefur tekið þó nokkrum breytingum frá því fyrr í sumar; búið er að mála þakið, setja glugga á húsið að framanverðu og koma fyrir skiltum. Þá er unnið að því að leggja göngustíg við gamla pakkhúsið (eða Salthúsið) en það var endurbyggt á Hafnarstrætinu fyrir áramót og er eitt af elstu húsum Þingeyrar. Einnig er búið að reisa vinnupalla við Hafnarstræti 1 og vinna hafin við húsið svo það er nóg um að vera á Hafnarstrætinu þessa dagana. Smellið á myndinar með fréttinni til að sjá fleiri framkvæmdir.