Frá smalamennskum í Fjáreyjum
Við vorum að spyrja um smalamennskur í Færeyjum um daginn eftir frásagnir og myndbirtingar úr smalamennskum hér í Vestfirsku Ölpunum.
Nú höfum við fengið frásögn og stórkostlegar myndir frá vini okkar, Magnúsi Ólafs Hanssyni frá Bolungarvík, nú starfandi hjá Atvest á Patreksfirði, af göngum og réttum í Færeyjum.
Við þökkum Magnúsi kærlega fyrir. Jafnframt minnum við á, að Færeyingar standa okkur þjóða næst. Þeir sem skröpuðu saman alla peninga sem þeir áttu til á eyjunum og lánuðu okkur frændum sínum eftir Hrunið.
Magnús segir:
Heill og sæll kæri vin
Þú spurðir á dögunum á Þingeyrarvefnum hvernig færeysku fé væri smalað. Hér koma nokkrar staðreyndir úr smalamennsku í Færeyjum.
Réttarpeli var hafður um hönd en þó ekki í líkingu við okkar íslenska sið. Hins vegar var drukkinn færeyskur bjór.
Ég bjó þarna í tvö ár og fór einu sinni í réttir, þá var boðið upp á nýslátrað með kjötsúpu fyrir þá sem mættu á staðinn. Ekki man ég eftir að menn rifust, hins vegar kættust menn og konur í réttunum.