Frá hreppsnefnd Auðkúluhrepps: Bjössi á Ósi skipaður fulltrúi hreppsins á Dynjanda og Dýrafjarðargöngum
Hreppsnefnd Auðkúluhrepps kom saman til fundar í Hokinsdal í fyrradag kl. 14:00. Nefndin leggur nefnilega áherslu á að halda fundi sína sem víðast í hreppnum til að gæta meðalhófs. Hokinsdalur er sem kunnugt er vestasti eða jafnvel syðsti bærinn í Auðkúluhreppi. Fer það allt eftir því hvernig menn líta á kortið.
Margt var rætt á fundinum. Og það var ekki bara röflað heldur voru teknar ákvarðanir og samþykktar harðar ályktanir. Hreppsnefnd Auðkúluhrepps er nefnilega þekkt að því að vera ekki verkfælin. Svo kemur í ljós á hverjum tíma hvernig úr spilast á vettvangi og í fjölmiðlum. Jæja.
Nefndin samþykkti einróma að skipa Þorbjörn Pétursson, bónda á Ósi, fulltrúa hreppsins í Dýrafjarðargöngum og á Dynjanda. Er þetta launalaust djobb sem slíkt. Þó verða dagpeningar, ferðakostnaður, sími og vinnufatnaður greitt eftir reikningi. Starfið er fólgið í því að vera til staðar með bros á vör. Veita yfirvöldum og ferðamönnum leiðbeiningar og aðhald ef á þarf að halda. Einnig var Bjössi skipaður forstjóri Orkuveitu Auðkúluhrepps, sem sér um rafmagn, heitt og kalt vatn og svoleiðis í hreppnum.
Hurðaskellir skellir hurðum
Á fundinum kom fram hörð gagnrýni á að náinn vinur og félagi oddvitans væri ráðinn í starfið án auglýsingar. Ekkert erindisbréf, starfslýsing né neitt. Eftir mikil átök gekk einn út og skellti á eftir sér hurðum. Mun það hafa verið Hurðaskellir. Hafði svo á orði um leið og hann skellti, að þetta væri engin fundarstjórn. Menn náðu þó samkomulagi eftir harða hríð.
Ungmennafélagið 17. júní
Samþykkt var að veita Ungmennafélaginu 17. júní 75 þúsund króna styrk úr hreppssjóði, sem er nú fátækur fyrir. Á styrkurinn að renna til kaupa á nýju spjóti, kringlu og kúlu (drengjakúlu). Öll gömlu tækin eru meira og minna úr sér gengin hjá félaginu. Sem kunnugt er hefur Auðkúluhreppur alltaf verið sigursæll á Héraðsmótunum á Núpi og vonandi verður svo áfram, alla vega í köstunum.
Mikið var rætt um að leggja aðstöðugjald á fiskeldið í hreppnum og fleira því tengt. Verður sagt frá því síðar.
Grelöð Bjartmarsdóttir jarls á Írlandi
fundarritari