Frá Akademíunni á Þingeyri: - Sjómenn eiga skilið dagpeninga ekki síður en ríkisstarfsmenn!
Eftirfarandi kom upp úr heita pottinum og bárulaugunum í sundlauginni á Þingeyri í gærmorgun:
Við beinum þeim eindregnu tilmælum til samninganefnda sjómanna og útvegsmanna að þeir láti skynsemina ráða og semji nú þegar um sín mál. Það er þjóðarnauðsyn. Við minnum á viturleg orð hins margreynda samningamanns, Magnúsar Óskarssonar borgarlögmanns, í bók hans Með bros í bland:
„Samningar eru málamiðlun, það er afsláttur frá kröfum. Í því felst að menn verða að beygja sig og éta ofan í sig sumt af því sem þeir hafa fullyrt og staðið fast á.“
Og margir spekinganna í Akademíunni vilja taka undir þá skoðun að sjómenn eiga skilið dagpeninga. Ekki síður en ríkisstarfsmenn og aðrir landkrabbar sem sumir eru nefnilega á dagpeningum bæði nótt og dag!