A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
18.09.2017 - 18:47 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson,forseti.is,Björn Ingi Bjarnason

Forseti birtir yfirlýsingu á Bessastöðum um þingrof

Forseti Íslands - Guðni Th. Jóhannesson. Ljósm.: forseti.is
Forseti Íslands - Guðni Th. Jóhannesson. Ljósm.: forseti.is
« 1 af 2 »
YFIRLÝSING FORSETA ÍSLANDS

Í dag féllst ég á þá tillögu forsætisráðherra að þing verði rofið 28. október næstkomandi og gengið til alþingiskosninga sama dag.

Á laugardaginn var, hinn 16. september, baðst forsætisráðherra lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Við þeirri beiðni varð ég en bað ráðherra og ráðuneyti að sitja þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð, í samræmi við stjórnskipunarvenju.

Þá þegar lá ljóst fyrir að nær örugglega kæmi senn fram tillaga um þingrof. Ég aflaði þess vegna upplýsinga hjá leiðtogum þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi um hug þingmanna til þingrofs og kosninga. Einnig kannaði ég möguleika á myndun annarrar ríkisstjórnar sem nyti meirihlutastuðnings á þingi eða gæti að minnsta kosti varist vantrausti. Að þeim viðræðum loknum var ljóst að ekki yrði reynt að mynda nýja stjórn. Jafnframt kom fram ríkur stuðningur við þingrof og kosningar.

Þá hef ég sannreynt að þegar formenn og fulltrúar þeirra flokka sem nú hafa slitið samstarfi ákváðu að mynda ríkisstjórn gerðu þeir ekkert skriflegt samkomulag um að þing yrði ekki rofið án samþykkis þeirra allra, eins og gjarnan var raunin í tíð fyrri ríkisstjórna.

Eins liggur að sjálfsögðu fyrir að ráðherrum í þeirri starfsstjórn sem nú situr er eingöngu ætlað að sinna störfum sem æðstu embættismenn hver á sínu sviði.

Loks er vert að ítreka að þing verður ekki rofið fyrr en á kjördegi, 28. október. Þangað til geta þingmenn komið saman og sinnt sínum störfum; alþingismenn halda umboði sínu til kjördags.

Kjósendur munu nú ganga til alþingiskosninga á nýjan leik, innan við ári eftir að síðast var kosið. Engin meirihlutastjórn í sögu lýðveldisins hefur setið skemur en sú sem baðst lausnar í fyrradag. Fólk hlýtur að vænta þess að þeir, sem kjörnir verða til setu á Alþingi í næsta mánuði, geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð og skyldu að stuðla að stöðugu stjórnarfari í landinu. Ég leyfi mér að ítreka þau upphafsorð mín við setningu Alþingis fyrir tæpri viku að þingið er þungamiðja stjórnskipunar okkar; þangað sækja ráðherrar og ríkisstjórn umboð sitt, þangað horfir fólk þegar það æskir endurskoðunar á lögum landsins, og því er svo mikilvægt að þingið njóti virðingar manna á meðal, að þingheimur sé traustsins verður.

18. september 2017
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31