Fornleifauppgröftur á Hrafnseyri
Fyrir rúmri viku síðan komu átta nemendur í fornleifafræði til landsins frá hinum ýmsu háskólum í Bretlandi. Þau munu starfa hjá fornleifadeild í 4 vikur og vinna við rannsóknir sem fornleifadeildin vinnur að. Hópurinn dvelur á Hrafnseyri þar sem rannsóknin Arnarfjörður á miðöldum heldur áfram, auk þess sem uppgröftur hefst á Auðkúlu í Arnarfirði í tengslum við sömu rannsókn. Fornleifadeildin og nemarnir munu auk þess vinna með starfsmönnum að fornleifarannsókn í Ósvör í Bolungarvík og við gerð könnunarskurða á Patreksfirði. Vel hefur gengið á Hrafnseyri og í ljós er að koma niðurgrafið jarðhýsi auk stórs seiðs sem notaður var til að elda kjöt utandyra. Minni eldurnarseiðir fundust i fyrra, en þessi sem verið er að grafa er eins og þeir stæstu sem grafnir hafa verið upp hér á landi. Jarðhýsi eins og það sem hefur fundist voru algeng á 10. og 11. öld og voru oftast nærri skálum. Tvö mjög svipuð jarðhýsi fundust við hlið skálans á Grelutóftum árið 1977 við fornleifauppgröft. Nokkuð hefur fundist af gripum sem allir eru dæmigerðir víkingaaldargripir eins og snældusnúðar, brýni, naglar og glerperla. Nemarnir munu dvelja á Hrafnseyri til 7. september.