Flateyringar söfnuðu hálfri milljón
Björgunarsveitin Sæbjörg efndi til söfnunar í þágu íbúa Nuugaatsiaq síðastliðinn miðvikudag en með henni vildu Flateyringar endurgjalda þann stuðning sem Grænlendingar sýndu þeim í kjölfar snjóflóðsins árið 1995.
„Grænlendingar studdu dyggilega við bakið á okkur og okkar samfélagi í kjölfar snjóflóðsins árið 1995 og var sá stuðningur ómetanlegur,“ sagði í tilkynningu frá björgunarsveitinni í síðustu viku.
Heildarupphæðin, 518 þúsund krónur, var afhent landssöfnuninni Vinátta í verki í gær klukkan 15 fyrir framan leikskólann á Flateyri, en leikskólinn var á hættusvæði þegar snjóflóðið féll 1995. Flateyringar fengu því nýjan leikskóla að gjöf frá Færeyingum eftir flóð.
Þau Íris Ösp Heiðrúnardóttir og Karl Ottosen Faurschou, talsmenn söfnunarinnar, tóku á móti söfnunarfénu.