19.06.2008 - 00:30 | bb.is
Fjölmenni á Hrafnseyri
Hátíðarhöld á Hrafnseyri við Arnarfjörð gengu ljómandi vel. Mikið fjölmenni lagði leið sína á fæðingastað Jóns Sigurðssonar forseta, en talið er að á fjórða hundrað gesta hafi verið á Hrafnseyri. Dagskráin hófst á messu þar sem séra Karl Sigurbjörnsson biskup predikaði. „Kapellan var yfirfull og fólk hlustaði á messu jafnt inni sem úti", segir Valdimar Halldórsson, staðarhaldari á Hrafnseyri. „Því næst flutti Sólveig Pétursdóttir hátíðarræðu. Þar á eftir lægði vindinn svo við gátum farið með skemmtiatriðin út á pall sem áhorfendur tóku mjög vel."
Fyrstur á svið var kór Þingeyrarkirkju sem söng fjögur ættjarðarlög. Því næst stigu á stokk Þorgeir Ástvaldsson og Ragnar Bjarnason og fluttu lög eftir föður þess síðarnefnda, föðurbróður og fleiri. Hestamannafélagið Stormur bauð fólki á bak og farið var í leiki á túninu í góða veðrinu. „Dagskráin endaði með glímusýningu Harðarmanna og kvæðaupplestri. Þetta var mjög vel heppnað", segir Valdimar.