Fjöldi skoðar Fjallkonuna í Þjóðarbókhlöðunni
Samstarfsaðilar Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um sýninguna eru Vetrarhátíð í Reykjavík, félagið Matur - saga – menning, Reynir Ingibjartsson, Kvennasögusafnið og Miðstöð munnlegrar sögu.
Sýningarstjóri er Djúpmaðurinn Ólafur J. Engilbertsson.
Dýrfirðingurinn Kristín Dahlstedt og starfsemi hennar er viðfangsefnið í sýningunni um veitngahúsamenninguna.
Fjallkonan
Kristín Dahlstedt Jónsdóttir (1876-1968) fæddist að Botni í Dýrafirði. Átján ára gömul kynnist hún Magnúsi Hjaltasyni Magnússyni (1873-1916), skáldinu frá Þröm, og fyrirmyndinni að Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi í skáldsögu Halldórs Laxness, Heimsljósi. Kristín sleit trúlofun þeirra Magnúsar þegar hann hafði tekið að sér aðra konu. Magnús hafði síðast samband við Kristínu þegar hann sat af sér dóm fyrir nauðgun í hegningarhúsinu á Skólavörðustíg.
Haustið 1898 sigldi Kristín til Danmerkur. Hún starfaði næstu árin á hótelum á Jótlandi og síðar í Kaupmannahöfn. Hún kom aftur til Íslands haustið 1905 og hafði þá hlotið góða menntun og starfsreynslu á hótelum og veitingastöðum í Danmörku.
Kristín var strax ráðin til starfa á nýreistu glæsihóteli við Austurstræti – Hótel Reykjavík. Hún vildi hins vegar ráða sér sjálf og hóf fljótlega rekstur á eigin veitingastað að Laugavegi 68. Þar kynntist hún eiginmanni sínumsem síðan vann við hlið hennar. Kristín átti eftir að reka eina fimm veitingastaði við Laugaveginn undir heitinu Fjallkonan.
Kristín gerðist brautryðjandi um margt og innleiddi nýjungar s.s. gas til ljósa og eldamennsku. Síðast rak hún veitingastað við Tryggvagötu og hætti veitingastörfum rúmlega sjötug eftir 50 ár á þeim vettvangi.
.
Ævisaga Kristínar Dahlstedt, sem Patreksfirðingurinn Hafliði Jónsson skráði, kom út árið 1961 og þykir með merkari ævisögum, ekki síst í röðum ævisagna kvenna. Nýlega var bókin endurútgefin hjá Vestfirska forlaginu.
.
Smellið á myndina til að skoða sýningarskrá: