Fjölbreytt dagskrá á Hvanneyrarhátíð í dag - 9. júlí 2016
Hvanneyrarhátíðin 2016 rfer fram í dag, 9. júlí 2016 frá kl 13 til 17.
Þennan dag taka heimamenn vel á móti gestum og gangandi með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Upphaf hátíðarinnar má rekja til Safnadagsins sem Landbúnaðarsafn Íslands tók þátt í, og bauð þá velunnurum sem og gömlum nemendum að koma á Hvanneyri og kíkja á safnið, sér að kostnaðarlausu og hitta gamla félaga og vini. Nú hefur Safnadagurinn verði færður fram í maí og Hvanneyrarhátíðin stendur nú sem sér viðburður sem hefur vaxið fiskur um hrygg undan farin ár og fjöldi gesta margfaldast á milli ára.
Meðal dagskráliða í ár eru heyvagnaakstur, opið fjós, pönnukökubaksturskeppni, leiðsögn verður um Yndisgarða á Hvanneyri, markaður í íþróttahúsinu, danshópurinn Sporið tekur sporið, húsdýr með ungviði verða á staðnum og andlitsmálun og ýmsir leikir verða í boði fyrir börnin.
Tenging fyrrum nemenda Bændaskólans við Hvanneyri er sterk og hjá mörgum er það orðinn fastur liður að sækja Hvanneyrarhátíðina heim þar sem gamlir og góðir tímar eru rifjaðir upp. Sett verður upp sýning á gömlu skólaspjöldum Bændaskólans í skólastofum Gamla skóla ásamt myndum frá skólasögu Hvanneyrar sem á sér nærri 130 ára sögu.
Frír aðgangur verður að Landbúnaðarsafni Íslands og ætla konurnar sem standa að Ullarselinu að sýna listir sínar á tröppum safnsins.
Einn af vinsælustu viðburðunum er innkoma Fornbílafjelags Borgarfjarðar sem stilla bifeiðum sínum upp ungnum sem öldnum til gamans. Þá verður gamli Andakílsskóli opinn ef fólk vill kynna sér starfsemina sem þar fer fram.
Erfðalindasetur Íslands verður með upplýsingar um íslensku húsdýrin og leggur til geitamjólk frá Háafelli sem notuð verður í sérlagað geitalatté sem selt verður í kaffihúsinu Skemmunni.
Þá mun Bjarni Guðmundsson, forstöðumaður Landbúnaðarsafnsins, lesa upp úr nýrri bók sinni, Konur breyttu búháttum – saga Mjólkurskólans á Hvanneyri og á Hvítárvöllum, og ætlar Rjómabúið á Erpsstöðum að taka þátt í hátíðinni í ár með kynningu og sölu á vörum sínum.
Formleg dagskrá hefst kl 13:00 og lýkur henni kl 17:00.
Allar nánari upplýsingar um hátíðina og dagskrá má finna á Facebook síðu hátíðarinnar.