Fjallað um Monsieur Albert
Morgunblað Nicebúa og annarra Ríveríumanna, Nice-Matin, fjallaði í gær á heilli síðu um Albert Guðmundsson í tilefni landsleiksins í kvöld. Albert lék um tíma með liði borgarinnar og í Nice er fæddur Ingi Björn, sonur þeirra Brynhildar Jóhannsdóttur, síðar mikill markaskorari með Val. Albert var lengi í miklum metum suður þar og var meðal annars gerður að heiðursborgara í Nice.
Blaðið segir frá Alberti undir fyrirsögninni Monsieur Albert;Herra Albert, en hann hafi gengið undir því nafni suður frá. Farið er yfir fótboltaferilinn, þátttöku Albert í stjórnmálum, forsetaframboðið og að opinberum ferli hafi hann lokið sem sendiherra Íslands í Frakklandi með aðsetur í París í nokkur ár, skömmu fyrir andlátið.
Þá hefur blaðamaðurinn gaman af tengingunni við Guðmund Benediktsson, sem hefur hlotnast heimsfrægð vegna lýsinga leikja Íslands! Hann er sem kunnugt er kvæntur Kristbjörgu Ingadóttur, afabarni Alberts og Brynhildar. Blaðið greinir frá knattspyrnuferli þeirra beggja og greininni lýkur svo á því að sagt er frá því að Guðmundur og Kristbjörg eigi afar efnilegan knattspyrnumann að syni, hann leiki nú listir sínar fyrir PSV Eindhoven í Hollandi. „Og nafn hans: Einmitt. Albert Guðmundsson," segir Nice-Matin