A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
11.10.2016 - 06:47 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Fjallabræður sungu í hljóðveri Bítlanna

Kór Fjallabræður voru nokkra daga við upptökur í heimsfrægu stúdíóinu.
Kór Fjallabræður voru nokkra daga við upptökur í heimsfrægu stúdíóinu.

• Íslenskur karlakór söng í síðustu viku í stúdíóinu Abbey Road í Lundúnum
• Stemning á óviðjafnanlegum stað
• Alls 11 lög verða á þriðju plötu sveitarinnar, sem er væntanleg 26. nóvember

„Hugur sumra fór á flug í upptökunum og stemningin í söngnum var flæðandi og yndisleg. Minjagripir frá Bítlunum, myndir og áritanir frægra listamanna gáfu líka sterka tilfinningu um að Abbey Road væri magnaður staður,“ segir Páll Halldór Halldórsson, einn liðsmanna Fjallabræðra. Kórfélagarnir komu aðfaranótt mánudags úr einnar viku úthaldi í London, þar sem tekin voru upp ellefu lög með söng þeirra, sem gefin verða út á hljómplötu í haust.

 

Taktar og tónar með Bítlahljóm

Stúdíóið Abbey Road við samnefnda götu í miðborg Lundúna hefur verið starfrækt frá árinu 1931. Þar hafa margir frægir tónlistarmenn, bæði í sígildu deildinni sem og dægurmúsík, komið við. Þar má nefna Cliff Richard og The Shadows oftar en einu sinni og svo Bítlana sem hljóðrituðu mörg af sínum lögum og margar plötur, svo sem breiðskífuna Abbey Road sem er einfaldlega nefnd eftir götunni og stúdíóinu. Þá hafa sveitir eins og Rolling Stones, Pink Floyd og U2 tekið upp lög þarna auk fjölda listamanna nær í tíma.

„Að fara í Abbey Road í upptökur er hugmynd sem kom upp fyrir rúmlega ári. Þetta kallaði á mikinn undirbúning og svo kostar þetta talsvert. En staðurinn var óviðjafnanlegur og kórstjóranum Halldóri Gunnari Pálssyni var líka í mun að í upptökunum skapaðist einhver ólýsanleg stemning sem skilaði sér í tónlistinni. Og sú var líka raunin því í sumum laganna má heyra takta og tóna með Bítlahljóm,“ segir Páll. Hann er einn 53ja Fjallabræðra, en auk þeirra sungu í upptökunum þau Lay Low, Magnús Þór Sigmundsson, Mugison, Jónas Sig, Sveinbjörn Hafsteinsson, Sverrir Bergmann og Unnur Birna Björnsdóttir. – Alls voru í hópnum 135 manns, að meðtöldum konum kórfélaga sem komu út til London þegar upptökur voru komnar vel áleiðis.

 

Ótrúlegir dagar

„Þetta hafa verið ótrúlegir dagar og þetta verður einn af hápunktunum á söngferlinum,“ segir Páll. Afraksturinn kemur svo út á 3. plötu Fjallabræðra sem kemur út samdægurs og jafnhliða tónleikum sem verða þann 26. nóvember.

 

Morgunblaðið 11. október 2016.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31