Finn sterka samkennd með Auði
Með bókinni Blóðug jörð, sem kemur út næstkomandi fimmtudag, lýkur þríleik Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, sem nam land í Dölum við Breiðafjörð undir lok níundu aldar. Áður voru komnar bækurnar Auður, sem kom út 2009, og Vígroði, sem kom út 2012.
Á þeim fimm árum sem liðin eru frá því að Vígroði kom út hefur ýmislegt gengið á lífi Vilborgar, eins og hún rak í bókinni Ástin, drekinn og dauðinn sem kom út 2015, en hún gegndi líka starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands eitt misseri, þar sem hún vann með ritlistarnemum.
Spurð um það starf segist Vilborg aldrei hafa lært ritlist, og hlær við, „en ég lærði gríðarlega mikið á því að kenna hana og það rann upp fyrir mér að ég var búin að tileinka mér eitt og annað í gegnum tíðina sem ég vissi ekki að ég kynni.“
Hún segist hafa lagt áherslu á það í kennslunni hve mikilvægt það sé að beita sig sjálfsaga og gera vinnuáætlun, nokkuð sem komið hefur að góðum notum í hennar eigin skrifum.
- Bækurnar þrjár af Auði rekja sögu hennar frá æskuárum í Noregi og til þess að hún reisir sér skála í Hvammi í Hvammsfirði og maður sér persónuna breytast og þroskast eftir því sem yfir hana dynur. Í fyrstu bókunum fannst mér auðvelt að bera virðingu fyrir Auði, en það var ekki fyrr en í Blóðugri jörð að mér fór að þykja vænt um hana.
„Já, hún er svolítið hörð, en hún verður mildari og dýpri. Þegar maður horfir á það sem til er um hana í heimildum birtist mynd af manneskju sem er gríðarlega sjálfstæð og sker sig úr fjöldanum að því leyti. Þetta er á tímum þegar konur voru eign karlmanna fjölskyldunnar; föðurins, eiginmannsins eða sonarins, ef eiginmaðurinn féll frá og sonurinn var orðinn sextán ára. Þetta er ekki ólíkt því sem við sjáum í Sádi-Arabíu í dag þar sem konurnar gera það sem þeim er sagt og helsta hlutverk þeirra er að ala börn. Auður stendur svo upp úr þessu fyrir svo margt, hún fer sjálf fyrir eigin leiðangri, lætur sjálf smíða skip og heldur utan um barnahópinn og tekur karlmannshlutverkið.“
- Hún tekur sér það hlutverk og eins og sagt hefur verið um konur sem vilja ná árangri enn þann dag í dag: Þær þurfa að vera að minnsta kosti tvöfalt betri en karlarnir til að standa jafnfætis þeim.
„Hún er alltaf að spyrna á móti í gegnum alla söguna, það eru alltaf að koma karlar sem vilja taka við forræðinu.
Í bókinni er ég líka að nýta eigin reynslu af sorg og áföllum. Þessi kona er búin að missa allt þegar hún flýr frá Skotlandi, hún er flóttakona sem er að flýja stríðástand í landi þar sem öryggið er ekkert, hún þarf að vernda börnin og koma þeim í skjól.“
- Eins og þú segir í tileinkun bókarinnar: „Bókin er tileinkuð flóttafólki á öllum tímum.“
„Mér finnst mikilvægt að hafa í huga að þessi þjóð verður ekki til vegna þess að hingað streymdu frjálsar hetjur sem þoldu ekki yfirráð einhvers frekjugoggs í Noregi heldur kemur hingað fólk sem er að leita að betra lífi og það leggur allt undir, það leggur lífið undir að sigla hingað yfir hafið frá Bretlandseyjum og frá Noregi. Þetta er gríðarlegt ferðalag á opnum trébáti þegar ekki eru til nein siglingatæki og við heyrum aldrei um allt það fólk sem drukkaði á leiðinni hingað. Það hlýtur að hafa verið örvænting sem rak fólk af stað.
Auði eru öll sund lokuð og hún verður að fara. Svo sker hún sig úr að því leyti að hún er kristin í alheiðnu samfélagi og ég get ekki ímyndað mér að sonur hennar og eiginmaður hafi verið sáttir við það. Heiðin menning byggist svo mikið á blóðfórn og þrælahaldi, sem við viljum svo gjarnan horfa framhjá. Þrælahaldið var undirstaða þess að það væri hægt að erja jörðina þar sem mannshöndin hafði aldrei komið nærri, getur þú ímyndað þér hvað það þurfti mikið mannafl?“
- Landnámssagan var blóðug og grimmileg harmsaga fyrir það fólk sem hingað var flutt nauðugt viljugt.
„Þegar ég byrjaði á fyrstu bókinni 2006 komst ég mjög fljótlega á snoðir um Dún Breatann, Dumbarton, árið 870 og þrælana sem þar voru teknir og seldir á þrælamarkaði í Dyflinni og síðan um þrælauppreisnina gegn Hjörleifi Hróðmarssyni stuttu síðar. Í tíu ár hef ég verið að tengja saman þessa mynd og núna er mér alveg hætt að finnast þetta vera skáldskapur, mér finnst eins og þetta hljóti að hafa verið svona – fyrsti atburðurinn sem gerist á Íslandi og lýst er í Landnámu er uppreisn þrælanna gegn húsbændunum og síðan eru þeir drepnir þannig að blóði er úthellt, bæði norrænna manna og keltneskra.
Það er skautað yfir þrælahaldið í sögukennslunni, en þegar maður hugsar um það sér maður hvað það þarf að beita fólk miklu ofbeldi til að kúga það til að flýja ekki. Meðal annars eru nöfnin eru tekin frá því – þrælanöfnin sem við sjáum í Landnámu eru Kolur og Surtur og Svartur og Drafdittur, sá sem mokar skítinn. Þrælarnir eru sviptir öllu til að halda þeim föngnum.“
- Ég geri mér það í hugarlund að þegar þú byrjaðir að skrifa ævisögu Auðar hafi það verið vegna þess að þér fannst hún forvitnileg og spennandi, barst virðingu fyrir henni eins og henni var lýst. Hvernig líður þér svo í dag þegar þú hugsar til hennar að verkinu loknu?
„Þú lýsir því ágætlega hvernig mér leið þegar ég byrjaði á bókinni fyrir tíu árum, en þá var líf mitt líka allt öðruvísi en það er í dag. Nú, öllum þessum árum síðar, eftir þann missi sem ég er búin að ganga í gegnum, búin að missa föður, tengdamóður, manninn minn og litlu dótturdóttur mína, þá finn ég mjög sterka samkennd með Auði. Ég veit hvernig það er að missa og missa og missa, en þurfa samt alltaf að standa í fæturna og halda áfram. Það er ekkert annað í boði. Þú verður að hugsa um börnin, það kemur númer eitt, þínar tilfinningar verða að fara til hliðar í bili og svo græturðu bara á kvöldin og á morgnana, lýkur því af og gengur svo í verkin.“
Morgunblaðið sunnudaginn 8. október 2017.
Árni Matthíasson arnim@mbl.is