Ferðamennskan á Þingeyri: - Aldrei meiri aðsókn á tjaldsvæðið, mest erlendir ferðamenn
Aðsókn á tjaldsvæðið á Þingeyrihefur aldrei verið meiri en það sem af er sumri. Svo segja þær stöllurnar Þorbjörg Gunnarsdóttir forstöðumaður og Monika Kristjánsdóttir eftirlitsmaður. En mest eru þetta erlendir ferðamenn. Í maí kom til dæmis enginn íslenskur ferðamaður á tjaldsvæðið! En heldur hefur þeim fjölgað það sem af er júní.
Tjaldsvæðið er staðsett við Íþróttamiðstöðina og er því þjónað þaðan. Þar er öll venjuleg aðstaða sem tíðkast á slíkum stöðum. Vatn, rafmagn, þvottavél og bara nefndu það. Umhverfis tjaldsvæðið er fallegur trjágróður sem veitir mjög gott skjól. Gestir og gangandi sjá glögglega að þar er snyrtimennska í hávegum höfð. Það er auðvitað eitt af grundvallaratriðum í slíkri þjónustu. Og ekki síður að fólk finni að það er velkomið. Þá kemur það aftur. Það er bara þannig.