30.03.2010 - 16:35 | BB.is
Ferðabóndi í útrás
Ferðaþjónustubóndinn Guðmundur Helgi Helgason á Hótel Núpi í Dýrafirði fór til Seattle um miðjan mars og hélt þorrablót fyrir um 200 manns. Þetta er í fjórða sinn sem Guðmundur Helgi Helgason heldur þorrablót fyrir Íslendinga í Seattle og var það fjölmennasta blót í fjölda ára að því er fram kemur á vef ferðaþjónustu bænda. Með í för var eiginkona Guðmundar, Vordís Baldursdóttir. „Við eigum ættingja í Seattle og það vantaði kokk á þorrablót svo við ákváðum að slá til," segir Guðmundur í samtali við bb.is fyrir stuttu er hann var spurður hvernig það hafi komið til að dýrfirskt hótel sjái um þorrablót vestanhafs. Þess má geta að ýmislegt er á döfinni á Hótel Núpi í Dýrafirði á næstunni, m.a. í tengslum við „Aldrei fór ég suður" á Ísafirði um páskana og málþing um umhverfisvæna Vestfirði þann 17. apríl.