Fer brosandi í gegnum lífið
• Katrín Björk Guðjónsdóttir, 24 ára Flateyringur, bloggar um bataferli sitt • Tvö ár liðin frá því hún lamaðist eftir mikið heilablóðfall • „Tel mig vera heppnustu manneskju í heimi“
„Ég lærði alltof ung að ég geng ekki að morgundeginum vísum og síðan ég fór að muna eftir mér þá nýt ég hverrar líðandi stundar. Ég er svo ótrúlega heppin að þetta hugarfar hefur fylgt mér alveg síðan þá og mun fylgja mér út lífið.“ Þannig hefst bloggfærsla Katrínar Bjarkar Guðjónsdóttur, 24 ára Flateyrings, sem glímir við alvarleg veikindi. Hún setur færsluna inn á síðu sína, katrinbjorkgudjons.com, í dag í tilefni af því að tvö ár eru liðin frá því hún lamaðist við heilablóðfall og hóf að blogga um bataferil sinn.
Katrín Björk fékk fyrstu heilablæðinguna fyrir þremur árum. Þá var hún 21 árs háskólanemi að farast úr prófkvíða og las allt námsefnið mörgum sinnum yfir. Þá fékk hún litla heilablæðingu og missti kraft í hægri hluta líkamans. Morguninn eftir var hún á góðri leið með að endurheimta allan kraftinn og var hin fúlasta að fá ekki að fara heim til að halda áfram að læra. Þegar hún vaknaði morgun einn, um tíu dögum síðar, hafði hún fengið blóðtappa og gat ekki hreyft hægri höndina.
Var í hugarhelvíti um tíma
„Um leið og ég áttaði mig á þessu lá leiðin mín beinustu leið inn í ógeðslegt hugarhelvíti, ég var að farast úr hræðslu við eigin hugsanir. Næstu sjö mánuðir liðu í mesta sársauka sem ég hef upplifað, dagarnir liðu í mesta feluleik sem ég hef upplifað og næturnar liðu nánast því allar alveg eins, ég var svo ógeðslega hrædd að ég gat ekkert sofið því ég hræddist svo hugsanir mínar og drauma þannig að ég laumaðist alltaf sem lengst frá öllum og grét alla nóttina,“ skrifar Katrín.
Eftir þannig nótt vaknaði hún og ætlaði að snúa við blaðinu. Hljóp 5 kílómetra í þeim tilgangi að reyna að losna við hræðsluna og svaf svo næstu nótt áhyggjulausum svefni, í fyrsta sinn í langan tíma. Daginn eftir fékk hún mikla heilablæðingu og var flutt með sjúkraflugvél til Reykjavíkur þar sem gerð var á henni aðgerð.
„Ég man svo vel að á sama tíma og mamma sagði mér hvað ég hefði gengið í gegnum þá fylltist ég gleði, hamingju og ró og þessar tilfinningar hafa ekki vikið frá mér síðan 15. júní 2015 og munu aldrei fara. Hinn 15. júní endurheimti ég stelpuna sem ég hef alltaf verið,“ skrifar Katrín á blogg sitt.
Þegar hún er spurð hvernig hún hafi farið að því að halda gleði og hugarró í tvö erfið ár svarar hún: „Ég hef alveg frá því ég man eftir mér verið svo vitlaus að ég tel mig vissa um að vera heppnustu manneskju í heimi og mér finnst að öllum eigi að finnast það sama um sjálfa sig. Af því að ég er svona heppin hefur þessi gleði, hamingja og ró einkennt mig frá því ég man eftir mér.“
Á blogginu kemur fram að hún lítur á veikindi sín sem flækju sem hún ætlar sér að leysa, sama hvað það tekur langan tíma.
Skrifar um hið jákvæða í lífinu
Nú, tveimur árum eftir stóru heilablæðinguna, hefur Katrín ekki fengið afl í vöðva talfæranna. Því er erfitt að skilja mál hennar. Þá hafi hún aðeins kraft til að borða maukaðan mat. Jafnvægið sé ekki gott og noti hún því oftast hjólastól.
„Ég gæti svo vel falið mig inni í herbergi og verið reið og fúl við lífið, þar gæti ég í friði bloggað og sagt bara frá því vonda, öllum samskiptum sem hafa gjörsamlega farið úr böndunum, og ég gæti skrifað bara um það hvað ég þrái að vera ekki svona. Þá væri lífið mitt heldur sviplaust fyrir minn smekk, ég hef alltaf þurft að fara brosandi í gegnum lífið. Þess vegna skrifa ég nánast eingöngu um jákvæða hluti sem láta mér líða vel því sama þótt ég geti hvorki gengið né talað þá hef ég heila hugsun og ég get farið brosandi og hlæjandi í gegnum allt lífið,“ skrifar Katrín Björk Guðjónsdóttir.
Morgunblaðið 14. júní 2017.