09.02.2016 - 09:04 | Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið
Fækkun sóknarbarna
Þótt séra Baldur sé farinn á aðrar og betri lendur, mun orðstír hans hérna megin grafar lengi lifa. Gott dæmi um það er Austfirðingurinn sem nýlega pantaði bækur hjá forlaginu á hjara veraldar. Átti hann langt tal við forlagsstjórann um Vatnsfjarðarklerkinn. Mikill aðdáandi hans eins og fleiri.
Austfirðingurinn sagðist hafa hitt séra Baldur fyrir nokkrum árum í góðu tómi í Vatnsfirði. Í samtali þeirra kom vel fram sá háttur síra Baldurs að tala í öfugmælum, þvert um hug sér. Sá austfirski tók svo til orða:
„Er nú ekki farið að fækka heldur í þínum sóknum þessi árin, Baldur minn?“
„Jú, sem betur fer góði,“ svaraði klerkur þeirra Djúpmanna.