A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
19.01.2017 - 20:46 | Vestfirska forlagið,Fjöruverðlaun,Björn Ingi Bjarnason

FJÖRUVERÐLAUNIN 2017: VERÐLAUNAHAFAR

Fjöruverðlaunin, bókmennta-verðlaun kvenna, voru veitt við hátíðlega athöfn í Höfða 19. janúar 2017. Steinunn G. Helgadóttir fékk verðlaunin í flokki fagurbókmennta, Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir fengu verðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta og Steinunn Sigurðardóttir í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur -Bókmenntaborgar UNESCO er verndari verðlaunanna. Mynd: Reykjavíkurborg.
Fjöruverðlaunin, bókmennta-verðlaun kvenna, voru veitt við hátíðlega athöfn í Höfða 19. janúar 2017. Steinunn G. Helgadóttir fékk verðlaunin í flokki fagurbókmennta, Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir fengu verðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta og Steinunn Sigurðardóttir í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur -Bókmenntaborgar UNESCO er verndari verðlaunanna. Mynd: Reykjavíkurborg.

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru veitt við hátíðlega athöfn í Höfða í dag, 19. janúar 2017.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:
Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur

Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur

Þetta í ellefta sinn sem verðlaunin eru veitt og í þriðja sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunann  og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna og afhenti verðlaunahöfum blóm. Venju samkvæmt fengu verðlaunahafar keramik-egg eftir listakonuna Koggu. Einnig fengu verðlaunahafar afhent gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði.

Rökstuðningur dómnefnda:

Frá dómnefnd í flokki fagurbókmennta

Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur
Útgefandi: JPV

Skáldverkið Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur geymir fjölradda sagnaheim um sérstakar en þó trúverðugar manneskjur sem reyna að mynda tengsl í oft einmanalegri tilveru. Hér skarast líf og farast á mis, fínlegir þræðir fléttast saman. Textinn er uppfullur af mennsku og ber vott um næmi fyrir margbreytileika sálarlífsins. Höfundur leikur sér með ólík sjónarhorn og hversdagsleikinn og fantasían mætast með óvæntum hætti. Með flæðandi, heillandi stíl fangar höfundurinn skáldskapinn í tilverunni. Frásagnirnar eru ýmist sorglegar, spaugilegar eða þrungnar undirliggjandi óhugnaði, en höfundur leikur áreynslulaust á alla þessa strengi. Verðlaunabókin er samspil radda úr fortíð, nútíð og framtíð sem snerta við lesandanum.

Frá dómnefnd í flokki barna- og unglingabókmennta

Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur
Útgefandi: Iðunn

Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur er falleg, vel skrifuð og fræðandi bók um Ísland þar sem fjallað er um birtuna, myrkrið, dýralíf, gróðurfar, mannlíf, íslenska tungu og ýmislegt fleira sem tengist lífi okkar og tilveru á þessari litlu eyju. Höfundar koma vel til skila mikilvægi þess að hugsa vel um landið og að Ísland sé land okkar allra. Uppsetning bókarinnar er afar aðgengileg og hægt að grípa niður í bókina hvar sem er, aftur og aftur, og finna eitthvað sem fangar athyglina. Ríkulegar myndskreytingar mynda heildstætt verk þar sem hver blaðsíðan af annarri er sannkallað listaverk.

Frá dómnefnd í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis

Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur
Útgefandi: Bjartur

Steinunn Sigurðardóttir skrifar í Heiðu, fjalldalabóndanum um unga konu sem er margslunginn persónuleiki, full af andstæðum og fer eigin leiðir í lífinu. Heiða er einyrki á afskekktu sauðfjárbúi sem hellir sér út í sveitarstjórnarstörf vegna andstöðu sinnar við hugmyndir um Búlandsvirkjun í Skaftárhreppi, enda ljóst að virkjun myndi gerbreyta náttúrufari héraðsins. Bókin sýnir bónda sem segist hafa tímabundin umráð yfir landinu og telur það skyldu sína að vernda það. Deilur um virkjunina valda úlfúð í samfélaginu en sagan dregur einnig upp mynd af tryggri fjölskyldu og góðum grönnum. Heiða er persóna sem vekur áhuga lesandans og Steinunn hefur gert meistaraleg skil.

Einnig voru tilnefndar:

Fagurbókmenntir:
Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur
Kompa eftir Sigrúnu Pálsdóttur

Barna- og unglingabókmenntir:
Doddi: Bók sannleikans! eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur; myndir og kápa Elín Elísabet Einarsdóttir.
Úlfur og Edda: Dýrgripurinn, höfundur texta og mynda er Kristín Ragna Gunnarsdóttir.

Fræðibækur og rit almenns eðlis:
Hugrekki – saga af kvíða eftir Hildi Eiri Bolladóttur
Barðastrandarhreppur – göngubók eftir Elvu Björgu Einarsdóttur

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2017 skipa:

Fagurbókmenntir:

  • Guðrún Lára Pétursdóttir, ritstjóri tímaritsins Börn og menning
  • Salka Guðmundsdóttir, leikskáld og þýðandi
  • Bergþóra Skarphéðinsdóttir, íslenskufræðingur

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður
  • Þorbjörg Karlsdóttir, bókasafnsfræðingur
  • Arnþrúður Einarsdóttir, kennari

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Erla Elíasdóttir Völudóttir, þýðandi
  • Helga Haraldsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu
  • Sigurrós Erlingsdóttir, íslenskukennari
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31