FIMMTA HJÓLABÓK ÓMARS SMÁRA
Hjá Vestfirska forlaginu er komin út fimmta Hjólabókin eftir Ómar Smára Kristinsson og fjallar hún um Rangárvallasýslu.
Viltu ferðast á frábæra staði? Viltu samt losna við fjölmenni? Þá er reiðhjólið rétti ferðamátinn og Rangárvallasýsla rétti staðurinn. Svo segir höfundur hjólabókanna, en hann er fæddur í Rangárvallasýslu.
Í bókinni er lýst ellefu hjólreiðaleiðum, auðveldum og erfiðum, sem eiga það sameiginlegt að þær liggja í hring og að hægt er að loka hringnum á einum degi. Hverri leiðarlýsingu fylgja tillögur að fleiri ferðum. Þar að auki er nokkurra léttra hringleiða, sem ekki teljast til dagleiða, getið í bókinni. Einnig er í henni að finna kort af almenningssamgöngum og umferðarþunga.
Um eitt og hálft hundrað ljósmynda gefa innsýn í sýsluna, hvernig þar er umhorfs og hverskonar vegir og stígar bíða lesenda.
Textinn er margbreytilegur, fjölhæfur og skemmtilegur líkt og í fyrri Hjólabókum Ómars Smára.