A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
08.05.2016 - 10:09 | Vestfirska forlagið,Hlynur Þór Magnússon

Eyjarnar á Breiðafirði ekki óteljandi lengur ...

Svavar Gestsson, ritstjóri Nýs Breiðfirðings.
Svavar Gestsson, ritstjóri Nýs Breiðfirðings.
« 1 af 3 »

Annað heftið af ársritinu Nýjum Breiðfirðingi kemur út á sunnudag, 8. maí. Kynning á ritinu og því sem þetta hefti hefur að geyma verður meginefnið á samkomu í Breiðfirðingabúð við Faxafen, sem hefst kl. 14.30 á sunnudaginn. Hún byrjar með kaffi og hnallþórum og kórsöng og síðan verður fjallað um ársritið. Eftir það verður kynnt endurútgáfa á tónlist Leikbræðra (1945-1955) og diskur verður til sölu á staðnum. Þar verður líka hægt að fá tímaritið Breiðfirðing, bæði nýja heftið og síðan eldri hefti á vægu verði.

 

Þetta nýja hefti (nær væri að kalla það bók) er ennþá efnismeira og þykkara (218 blaðsíður) en fyrsta heftið sem út kom fyrir réttu ári, og sneisafullt af fróðleik og skemmtilegheitum. Hér mætti nefna fátt eitt.

  • Sagt er frá fjölda eyja og hólma á Breiðafirði. Núna er búið að telja eyjarnar á Breiðafirði, sem löngum voru sagðar óteljandi, líkt og hólarnir í Vatnsdal og vötnin á Tvídægru. Niðurstöðurnar eru í ritinu.
  • Þar eru einnig merkar greinar um Vesturbyggð, sem er burðarbyggðarlag ritsins í ár. Kristín Einarsdóttir frá Seftjörn á Barðaströnd safnaði því efni saman.
  • Fræðimaðurinn stórmerki Kjartan Ólafsson (Vestfjarðarit I, Firðir og fólk 900-1900, Vestur-Ísafjarðarsýsla), fyrrum ritstjóri og alþingismaður, skrifar um Kitta á Seli (Kristján Guðjónsson bónda í Svínanesseli í Múlasveit), þar sem kveikjan að Bjarti í Sumarhúsum Kiljans varð til.
  • Þarna stígur einnig á svið ritsnillingurinn Bergsveinn Birgisson, sem í fyrra færði okkur Geirmundarsögu heljarskinns.

 

Þeir sem vilja fá ritið sent mega gjarna senda tölvupóst í netfangið bf@bf.is eða gestsson.svavar@gmail.com.

 

Ritstjórinn Svavar Gestsson, fyrrv. alþingismaður og ráðherra, átti æsku sína og uppvöxt við Breiðafjörðinn, nánar tiltekið á Fellsströndinni, og hefur núna um árabil verið ásamt eiginkonu sinni með annan fótinn í Hólaseli í Reykhólasveit.

 

Breiðfirðingafélagið er útgefandi Nýs Breiðfirðings. Samverkamaður Svavars við útgáfuna er Haukur Már Haraldsson. Hann hefur um dagana fengist við blaðamennsku, ritstjórn, útlitshönnun og kennslu og jafnframt skrifað nokkrar bækur. Núna situr hann á friðarstóli eftirlaunamannsins líkt og Svavar.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31