„Et stykke kasseapparat“
Árið 1997 áttum við viðtal í Mannlífi og sögu, 3. hefti, við Böðvar Guðmundsson, fyrrum verslunarstjóra hjá Verslunarfélagi Dýrafjarðar. Þá var hann búsettur í Hafnarfirði og skip hans komið í naust. Böðvar var hafsjór af skemmtilegum fróðleik frá Þingeyrarárunum og ekki vantaði húmorinn. Hér verður gripið ofan í viðtalið þar sem tal okkar berst að peningaskáp sem var fjárhirsla Dýrfirðinga um árabil.
„Hvað fórstu svo að vinna eftir að skólagöngu lauk, Böðvar?“
„Þá fór ég til Nathanaels kaupmanns og vann hjá honum í versluninni Öldu í 11 ár.“
„Nathanael Mósesson er merkur maður í sögu Þingeyrar. Hvernig var að vinna hjá honum?“
„Alveg ljómandi gott. Þetta var gæðamaður.“
„Eitthvað sögulegt hefur nú gerst á þessum tíma hjá Nathanael.“
„Ég man vel eftir því atviki, skal ég segja þér, að Nathanael labbaði einu sinni út að kaupfélagi. Þá var einhver þar að opna stóran trékassa með verkfæri sem kallað var Símon kjaftur. Nathanael verður svona ofsalega hrifinn, maður. Svona verkfæri þyrfti hann endilega að fá sér. Þannig að það er sent skeyti til hr. grosser Christian Nielsen, Köbenhavn: Et stykke kasseapparat. Svo kom þetta með síðustu ferð Gullfoss fyrir stríð og þá var það þessi svakalega stóri peningaskápur sem kostaði 300 krónur, en Nathanael fórnaði höndum.
Svo braust stríðið út og þá, skal ég segja þér, fóru að sjást peningar. Þá var sparisjóðurinn í vandræðum því hann átti engan peningaskáp. Þeir vissu að Nathanael hafði fengið þennan stóra skáp og hringdu í Ólaf Gíslason og co, sem var umboðsmaður fyrir þessa skápa og spurðu hvað slíkur skápur mundi kosta. Svarið var það, að þeir hefðu margfaldast í verði út af stálinu. Verðið var lágmark 8 þúsund krónur. Sparisjóðurinn keypti skápinn fyrir þá upphæð. Þá var Nathanael ánægður. Og þeir í sparisjóðnum voru ekki síður ánægðir yfir að fá skápinn!“