A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
08.08.2015 - 06:57 | Valdimar H. Gíslason,Morgunblaðið,BIB

Eru hvalbeinin í Skrúð af stærstu skepnu sögunnar?

« 1 af 5 »
Lengsti hvalur sem Valdimar H. Gíslasoná Mýrum í Dýrafirði hefur lesið um var 33 metrar, en hann telur þó hugsanlegt að hvalbeinin í Skrúð séu af stærstu skepnu sem sögur fara af. Annan eins hvalreka hafði ekki rekið á fjörur manna á Íslandi svo vitað væri.

Á árunum 1890 til 1903 ráku Norðmenn hvalveiðistöð á Höfðaodda í Dýrafirði (sem Norðmenn kölluðu Framnes). Forstöðumaður stöðvarinnar var kapteinn Lauritz Jacob Berg frá Túnsbergi í Noregi. Séra Sigtryggur Guðlaugsson, prófastur á Núpi og stofnandi Skrúðs, segir svo frá í bók sinni um Skrúð:

Það var í landshöfðingjatíð Magnúsar Stephensen, að capt. Berg átti von á tignum gesti: heimsókn landshöfðingjans. Vildi capt. Berg taka sæmilega á móti honum og ekkert til spara þótt fátt væri um viðhafnarefni hér í „útlegðinni“. Svo bar þá við, að einn af veiðibátum hans náði stórhveli – einu því allravænsta, sem hér var að fjöru dregið. Þegar happdrætti þessum hafði verið slátrað til alls konar hagnýtingar lét capteinninn taka kjálka skepnunnar, hreinsa þá og fægja í skyndi. Því næst voru grafnir á enda niður tveir masturstrésstúfar og treystir sem öruggast, sinn hvoru megin við rætur bryggju þeirrar, sem landshöfðingi skyldi ganga eftir, er hann stigi á land. Við þessi masturstré voru svo kverkendar kjálkanna járnboltafestir rammlega, kjálkarnir uppreistir og trjónuendar þeirra festir eins saman í stöðu, sem líkastri því, er verið hafði í skepnunni lifandi. [...] Og hliðið fékk að standa svo lengi, sem eðlileg öfl náttúrunnar leyfðu.¹

En þar kom að tréstoðirnar fúnuðu og sigurboginn féll til jarðar. Hvalstöðin var rifin, húsum sundrað og efni flutt á brott, mest af því suður til Viðeyjar, en Milljónafélagið hafði keypt húsin og hugðist nota efnið úr þeim til uppbyggingar þar. Ábúendur á Höfða eignuðust hvalkjálkana á uppboði ásamt ýmsu drasli, sem ekki þótti svara kostnaði að flytja í aðra landshluta. Síðar gáfu þeir kjálkana sem minjagripi til Ungmennaskólans á Núpi, þar sem séra Sigtryggur Guðlaugsson var í forsvari sem skólastjóri.

Kjálkarnir voru fluttir sjóleiðina út að Núpssjó. Nemendur skólans sættu klakafæris næsta vetur og drógu kjálkana upp undir Skrúð, en í garðinum var þeim ætlaður staður. Dróst í allmörg ár að koma beinunum fyrir, en árið 1932 voru þau reist á steyptri undirstöðu þar sem þau standa enn í dag, árið 2008.²

Nánari upplýsingar um veiðar og stærð hinnar miklu skepnu sem lagði til hvalkjálkana í Skrúð er að finna í bók Mörtu Berg, konu kapteins Lauritz Berg. Bók þessi kom út í Ósló 1985. Í henni er kafli tekinn úr ævisögu Hj. Backe-Hansen: Spredte træk fra mit livs erindringer, sem kom út 1937. Kafli þessi nefnist: Paa hvalfangst ved Island, februar 1892 til oktober 1894.³
Í kaflanum eru áhugaverðar lýsingar á hvalveiðum og vinnslu hvalafurða. Einnig eru þarna skemmtilegar frásagnir af lífinu í hvalstöðinni og samskiptunum við Dýrfirðinga.

Sagt er frá hvalbátunum og búnaði þeirra. Þeir voru um 100 fet á lengd, með ca 190 hestafla vélum og gengu 8 sjómílur á klukkustund. Með hval í drætti var gangurinn 5-6 mílur. Hvalabyssan var staðsett frammi við stefni bátanna. Hlaupvíddin var um 3 tommur og hvalskutlarnir 1,5-2 metrar að lengd. Hvallínan var sem mannshandleggur að gildleika, 900 faðma löng. Venja var að hafa tvær slíkar línur um borð og 5-6 skutla. Á enda skutuls voru 4 klær, 6-7 tommu langar, sem opnuðust og læstust í hvalinn þegar strekktist á hvallínunni. Á skutlinum var komið fyrir sprengjuhleðslu sem í var 1 kg af grófkornuðu púðri. Þegar gripklær skutulsins opnuðust, brutu þær glerkúlur sem kveiktu í púðrinu.4

Af framansögðu sést, að hvalbátarnir frá hvalstöðinni á Höfðaodda (Framnesi) voru vel út búnir og hvalur sem varð fyrir skoti laut yfirleitt fljótlega í lægra haldi fyrir þessari hugvitssamlegu drápstækni. Árið 1892 voru þrír hvalbátar gerðir út af Framnesstöðinni í Dýrafirði: Viktoria, 74 brúttólestir, Friðþjófur, 85 brúttólestir og Elliði, 69 brúttólestir.

Hj. Backe-Hansen, sem er heimildarmaður að framansögðu, var skipverji á Elliða og varð 16 ára þetta ár. Snemmsumars voru skipverjar á Elliða í hvalaleit í íshröngli langt út af Dýrafirði. Eftir nokkurra daga leit rákust þeir á risastóra steypireyði. Þeir náðu fljótlega að koma skutli í hana. Um leið og hvalurinn fann fyrir skutlinum tók hann á rás og dró Elliða með sér á meiri hraða en hann hafði áður náð, og þó var vélin keyrð á fullu aftur á bak. Stýrimaðurinn átti fullt í fangi með að beina skipinu fram hjá ísjökum og maður stóð við hvallínuna með öxi, viðbúinn að höggva hana í sundur stefndi hvalurinn undir meginísinn. En hann tók stefnuna frá ísnum og ekki þurfti að nota öxina í það sinn.

Eftir um það bil eitt dægur var gerð tilraun til að draga hvalinn nær skipinu, en hann tók þá nýjan sprett, greinilega lítið af honum dregið. Nú gekk óðfluga á kolabirgðirnar. Var þá brugðið á það ráð að nálgast hvalinn með því að draga inn hvallínuna þar til hægt var að skjóta öðrum skutli í hann með annarri línu. Sprengihleðsla hafði sprungið í skutli 1 og sprakk einnig í skutli 2, en lítið dró þó af þessari risaskepnu, hún tók á rás enn á ný. Svo fór að 7 skutlum var skotið í dýrið og sprungu sprengihleðslur í 5 þeirra. Þá loksins lét það af allri mótspyrnu og var stungið til bana. Viðureignin hafði staðið í 52 klukkustundir frá því að fyrsti skutullinn hæfði. Þegar skipshöfn Elliða kom með hvalinn að hvalstöðinni voru bæði kola- og matarbirgðir skipsins upp urnar.5

Svo vel vildi til að franskur prófessor, Georges Pouchet, var staddur í hvalstöðinni til að rannsaka líffræði hvala. Geta má nærri að þetta hefur verið mikill hvalreki fyrir hann. Tók Pouchet hvalinn til rannsóknar og Hj. Backe getur um eftirtaldar niðurstöður: Þetta var steypireyður, kvendýr, 105 feta langt og í því 12 feta langt fóstur. Fóstrið sendi Pouchet til Frakklands til frekari rannsóknar. Um stærð hvalsins segir Hj. Backe að lokum: Det var den störste hval som nogen dalevende „hvalmand hadde seet“.6

Varla er nokkur vafi á, að hvalbeinin í Skrúð eru úr þessum hval, sbr. ummæli séra Sigtryggs um uppruna beinanna. En er þetta stærsta dýr á jörðinni sem veitt hefur verið? Því verður ekki svarað á sannferðugan máta nema komast í gögn prófessors Pouchet á söfnum í París og bera niðurstöður hans saman við heimildir um önnur stórhveli. Á interneti og í Heimsmetabókum Guinnes má finna fullyrðingar um stærstu hvali. Dæmi af interneti: The largest whale ever measured was a female weighing 171.000 kgs and measuring over 90 ft. -/- 27 m long. Hér er tekið mið af bæði lengd og þyngd. Lengsti hvalur sem undirritaður hefur lesið um var 33 m og þó ekki talinn með stærstu hvölum. Dýrafjarðarhvalurinn var kvendýr, 31,5 metra langt, og gæti samkvæmt framansögðu hafa vegið nær 200 tonn.

Hér er þó rétt að slá engu föstu fyrr en frekari gögn liggja fyrir. Verði niðurstaðan sú, að hvalbeinin í Skrúð séu úr stærstu skepnu sem sögur fara af, eru það stór tíðindi sem leggja eigendum beinanna, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun o.fl. miklar skyldur á herðar.

 

Heimildir:

Sigtryggur Guðlaugsson: Skrúður á Núpi. Græðsla og gróður í fjörutíu ár (1909-1949). Framkvæmdasjóður Skrúðs, 2004.

Hj. Backe-Hansen, 1937: Spredte træk fra mit livs erindringer. Paa hvalfangst ved Island, februar 1892 til oktober 1894. Birt í bók Mörtu Berg: Erindringer, 151-172. Oslo 1985.

 

Valdimar H. Gíslason 

Höfundur býr á Mýrum í Dýrafirði.

 

Morgunblaðið 20. apríl 2008

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31