Erlendir ferðamenn: - Verða Norðmenn á undan okkur?
Gárungarinir segja að Norðmenn hljóti að hafa lesið pistlana frá okkur spekingunum þremur um Íslandsgjaldið. Að minnsta kosti ætluðu þeir að leggja 1300 kr. íslenskar á alla erlenda ferðamenn sem koma til Noregs frá og með 1. apríl segir í fréttum. En auðvitað verða þeir að fresta gjaldtökunni til 1. júní. Flugfélögin sem áttu að annast hana eru ekki tilbúin. Þetta var fyrirfram vitað. Slíkir aðilar þekkja sjaldnast sinn vitjunartíma. En þeir vilja græða, græða og græða meira.
Íslandsgjaldið gerir ráð fyrir að hver fullorðinn erlendur ferðamaður greiði 5,000 kr. í aðgangseyri að landinu okkar. Til að við getum búið almennilega í haginn fyrir þá. Enginn yrði fegnari en þeir. Friðrik Pálsson, hótelhaldari á Suðurlandi og fyrrum forstjóri SH, fullyrðir að slík upphæð muni ekki hafa nein áhrif á komur ferðamanna til Íslands.
Það skal upplýst hér til samanburðar, að aðgangseyrir í Bláa lónið er frá 7.300 til 11,600 kr. Og það kostar 1,500 kr. að leigja sér inniskó á þeim góða stað. Hvað skyldu slíkir skór kosta í innkaupum, framleiddir af þrælum? Svo verða menn að greiða 42,771 kr. fyrir að gista eina nótt með morgunverði á þokkalegu hóteli í Reykjavíkinni. Þessar tölur segja blákalt að Íslandsgjaldið er hlægilega lágt ef eitthvað er.
En hvað á svo að gera við þetta blessaða Íslandsgjald? Nánar á morgun.