19.10.2015 - 15:59 | Hallgrímur Sveinsson
Er vaxtarbroddur Vestfjarða í dag í Mosdal í Arnarfirði?
Gamli oddvitinn í Auðkúluhreppi brá undir sig betri fætinum í gær og fór í inspektionsferð í sinn gamla hrepp. Enda ástæða til: Nú er allt á ferð og flugi í Mosdal. Þar virðist vera komið góðæri og opinberar framkvæmdir eru nú þar í gangi í slíkum mæli að elstu menn standa á gati. Við getum tekið undir með Ragnari og sagt: Ma-ma-ma-ma! Hefst nú upptalningin á þessum ótrúlega miklu framkvæmdum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Mosdal í Auðkúluhreppi, fæðingarsveit Jóns Sigurðssonar.
Í sumar var lagður rafstrengur í dalinn sem flytur þangað rafmagn frá Mjólkárvirkjun. Má segja að það sé ekki seinna vænna eftir 57 ár frá því virkjunin var gangsett. Í sama skurð var lagður ljósleiðari.