A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
05.09.2016 - 08:38 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Enn má finna leyndar perlur • Aukinn ferðamannastraumur á Vestfjörðum

« 1 af 2 »

Ferðamönnum hefur fjölgað á Vestfjörðum í sumar, eins og annars staðar. Þó að Dynjandi í Arnarfirði sé helsta aðdráttarafl svæðisins segir Páll Sigurðsson, landvörður í Vatnsfirði, Dynjanda og Surtarbrandsgili á Barðaströnd, að enn megi finna leyndar perlur á Vestfjörðum.

Meðal annars hefur verið unnið að því að setja upp stíga og plankabrýr yfir læki og árfarvegi til þess að auðvelda aðgengi að þeim. „Mín tilfinning er sú að Vestfirðir í heild séu enn falinn gimsteinn,“ segir Páll.

 

Margir Þjóðverjar

Hann segir að meiri ásókn hafi verið á svæðið í ár en í fyrra og til marks um það sé meira að gera á Hótel Flókalundi en áður auk þess sem ásókn á tjaldsvæði hefur vaxið. Enn er þó eftir að taka tölur um ferðamannafjölda saman. Aukningin er nær eingöngu vegna erlendra ferðamanna að sögn Páls. „Alla jafna eru 15-20 bílar á bílastæðinu við Dynjanda að lágmarki og svo kemur gusa þegar skemmtiferðaskipin koma í höfn á Ísafirði,“ segir Páll.

Að sögn hans eru Látrabjarg og Dynjandi helsta aðdráttaraflið. „En svo eru hátt í 300 manns sem komið hafa í gönguferð í Surtarbrandsgil í sumar. Það er ágætt með tilliti til þess að þetta er 2-3 tíma ganga. Það sem einnig vekur athygli er að í gönguferðina hafa komið álíka margir Þjóðverjar og Íslendingar eða um 90 manns af hvoru þjóðerni,“ segir Páll.

 

Falin perla við botn Vatnsdals

Að sögn Páls geta Vestfirðir auðveldlega tekið við fleira fólki og hvergi sé þröng á þingi nema kannski á tjaldsvæðinu við Flókalund á stöku tímabilum. „Ein af þeim földu perlum sem ég hef upplifað er við botn Vatnsdals. Þar er falinn fjársjóður af fossaröðum sem fáir vita af. Við höfum verið að leggja plankabrýr þar inn dalinn til þess að bæta aðgengi þannig að hægt sé að fara þangað án þess að þurfa að vaða árnar,“ segir Páll en Vatnsdalsá er mörgum kunn sem veiðiá.

Plankabrýrnar voru lagðar fyrir tilstuðlan styrks úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Er nú einnig unnið að því að gera palla við fossa nærri Dynjanda auk þess að gera stíg svo að fatlaðir eigi þar auðveldara um vik með aðgengi að fyrstu tveimur fossunum frá bílastæðinu við Dynjanda. Stefnt er að því að gera þrjá palla til viðbótar ofar á leiðinni að Dynjanda.

 

 

Morgunblaðið 4. september 2016.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31