A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
20.12.2015 - 09:51 | Emil Ragnar Hjartarson

Emil Ragnar Hjartarson og landsprófið á Núpi

Núpur í Dýrafirði. Ljósm.: BIB
Núpur í Dýrafirði. Ljósm.: BIB
« 1 af 2 »

Það er verið að tala um Núpsskóla. Ég sat þar einn vetur til landsprófs. Það var góður vetur, enginn "útlagavetur" fjarri því. Okkur leið ágætlega en mér býður í grun að áhyggjur stjórnenda hafi verið talsverðar. Skólinn var einangraður langtimum saman, ófært landleiðina-jafnvel að næsta bæ og seinlegt að bregða við ef eitthvað bjátaði á.. Það gerðist ekki þennan vetur.

Áreiti utan frá ekkert, útvarp ekki í heyrnarfæri innan skóla-eða vistarveggja.. Maður saknaði einskis. Hver dagur var niður njörfaður samkvæmt stundaskrá, líka sunnudagar. Kennslustundir,lestímar og útivist nógu löng til að stunda fótbolta eða gönguferðir , skíðaferðir í hlíðum Núpsins þar sem ótrúleg leikni Patreksfirðinga á tunnustöfum vakti aðdáun..þetta er einhvers konar héraðsíþrótt þeirra Barðsterndinga. Reykingamenn töltu inn fyrir gamla barnaskólahúsið og iðkuðu nautn sína undir vegg í leyfisleysi og banni. Þar sagði Arngrímur vaxa tóbaksjurtina um vorið.

Við fengum góða gesti. Axel Andrésson með knattleiknikerfi sitt "Axelskerfið" og var sett Íslandsmet í kerfinu í hverjum skóla--stigagjöfinni breytt eftir þörfum. Gunnar Salomonsson sýndi aflraunir og hreifst svo af Sólbergi Bolvíkingi að hann átti við hann einkasamtal að sýningu lokinni, vildi fá hann með sér í sýningarferð. Allir hrifust af aflraununum--nema Sigtryggur gamli Honum ofbauð atgangurinn. þegar sundurtættri símaskrá var fleygt fram í sal og lenti á hnjám hans , þar sem hann sat í fremstu röð.

Guðmundur Hagalín var lengi gestur skólans þennan vetur og lífgaði tilveruna verulega. Honum fylgt í skrúðgöngu að Alviðrusjó þegar hann kvaddi.

Félagslíf var ekki mikið. Það var dansað á senunni. Þar var plötuspilari, feikna mubla sem náði plötusnúðinum, séra Eiríki ,skólastjóra, undir geirvörtur.

Frankie Yankovic og Gellin og Borgström aðallega á fóninum. Allrar siðsemi var gætt. Ef svo bar við að nálgaðist kinn að kinn stöðvaði plötusnúður spilverkið, leit yfir dansgólfið gegn um hnausþykk gleraugun. Þegar allir höfðu rétt úr sér og tekið upp kurteislegt hald hljómaði Yankovic á ný.

Á sunnudögum "húslestur" ef ekki var messað. Þar flutti skólastjóri fróðleg erindi, einnig Hagalín meðan hann dvaldi á staðnum. Kennsluna önnuðust Arngrímur, Ólafur og Eiríkur--allir ágætir kennarar, nemendum haldið fast að námi. Núpsskóli var í miklum metum og vegarnesti hans handa skólalýð gott.Ég horfi á mynd sem er tekin við flaggstöngina á skólahlaði. Þar sé ég verkstjóra,, bónda, kennara,skólastjóra, verkfræðing ,ritstjóra, héraðsdómara, sýslumann, kaupmann, bankastarfsmann, sjómenn, og útgerðarmann.

Forvitnilegt var ævistarfið hennar Dóru Páls frá Sveinseyri sem er þarna lengst til hægri í annarri röð. Hún var ráðskona allra þeirra sem hafa gegnt forsetaembætti á Íslandi, nema þess fyrsta. Hún undirbjó og sá um framkvæmd hvers kyns mannfagnaðar á forsetasetrinu og hlaut mikla viðurkenningu og þakkir.

Um fyrsta forsetann lærði hún ásamt okkur, þegar öllum nemendum var stefnt í kennslustofu þangað sem látið var koma útvarp. Þar hlýddum við á jarðarför Sveins Björnssonar., fyrsta forseta Íslands. Það var eina útvarpshlustunin á Núpi þennan skólavetur

--En-- eins og ég sagði: Þetta var góður vetur.

 

Af Facebook-síðu Emils Ragnars Hjartarsonar.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31