A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
22.04.2012 - 23:54 | JÓH

Ekki verra að byrja á toppnum

Karen Lind á Íslandsmótinu. Mynd: www.fitness.is
Karen Lind á Íslandsmótinu. Mynd: www.fitness.is
Dýrfirðingurinn Karen Lind Richardsdóttir bar sigur úr býtum á Íslandsmóti í módelfitness sem fór fram í Háskólabíói um páskana. Karen Lind sigraði í flokki kvenna undir 171 cm á hæð en alls kepptu áttatíu konur í fimm flokkum. Mótið var það stærsta sem haldið hefur verið í fitness á Íslandi frá upphafi en alls voru 160 keppendur í fitness, módelfitness og vaxtarækt skráðir til leiks.

Mótið var jafnframt fyrsta fitnessmótið sem Karen Lind tekur þátt í. „Mig hefur langað til þess að keppa í fitness í mörg ár og ákvað að byrja núna á módelfitness. Það kveikti á keppnisskapinu hjá mér þegar ég var að skoða myndir frá móti sem var í nóvember svo ég ákvað að slá til". Karen Lind byrjaði að undirbúa sig fyrir keppnina í desember og segir að það sé mikilvægt að skipuleggja sig vel. „Aðalundirbúningurinn var að setja niður æfingaáætlun en kærastinn minn, Ríkharð Bjarni, var svo góður að gera það fyrir mig. Einnig þurfti ég að skipuleggja matarræðið vel, að borða nógu oft og hugsa um það hvað ég setti ofan í mig".

Mikil umræða hefur verið um fitnessíþróttina í fjölmiðlum síðustu daga, einkum vegna niðurstöðu rannsóknar sem nemendurnir Sigurður Heiðar Höskuldsson og Sigurður Kristján Nikulásson unnu í námi sínu í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík. Rannsóknin var hluti af lokaverkefni þeirra við skólann og fól meðal annars í sér að kanna andlega og líkamlega líðan kvenkyns fitnesskeppenda. Helstu niðurstöður voru meðal annars þær að orkuinnihald mataræðis fitnesskeppenda er langt undir þeim ráðleggingum sem Lýðheilsustöð og American Dietetics Association leggja til.

Innt eftir viðbrögðum við þessari umræðu segist Karen Lind vera ósátt við að verið sé að einblína á neikvæðu þætti íþróttarinnar og telur marga dæma of fljótt án þess að hafa kynnt sér málin frekar. „Það hefur alveg gleymst að margar stelpur eru einnig að taka þátt til þess að "bústa" upp bæði sjálfsálit og sjálfstraust. Það er alveg rétt að þetta fer yfir í óheilbrigði síðustu 3-4 vikurnar fyrir mót hjá flestum en til þess að allt gangi vel upp er skipulag og ákveðni það sem þarf". Karen Lind segir jafnframt að það sé ekki hægt að fara í þessa íþrótt með hálfum huga og það þýði heldur ekki að hafa enga áætlun tveimur vikum eftir mót, eða eins og hún orðar það „If you fail to plan, you plan to fail".

Upplifun Karenar af keppninni var mjög jákvæð og hún stefnir ótrauð áfram í greininni. „Mér fannst þetta allt frábær og skemmtileg upplifun. Þetta var frábær hópur sem var í kringum þetta og skemmtilegar stelpur". Hún stefnir á að taka þátt í fitnesskeppni aftur í nóvember og keppa erlendis í framtíðinni. „Ég ætla mér stóra hluti í þessari grein og það er ekki verra að byrja á toppnum", segir Karen Lind að lokum.
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31