A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
19.12.2015 - 09:08 | Fréttablaðið,BIB

Ekki mokað lengur fyrir soninn fyrir jól

Ef ég hef veturinn af þá verð ég líka sumarið, ég segi það alltaf,“ segir Elísabet Pétursdóttir, bóndi á Sæbóli á Ingjaldssandi.

Hún og sautján ára sonur hennar eru einir ábúenda eftir í afskekktum vestfirskum dal en Ingjaldssandur er við Önundarfjörð milli Barða og Hrafnaskálarnúps.

„Við erum yfirleitt tvö heima. Strákurinn minn kemur til mín fyrir jól. Við erum alveg lokuð af á þessum tíma árs og nú er ég að slást við kerfið því ég fæ ekki lengur mokstur. Áður var séð til þess að sonur minn kæmist í og úr skóla en nú þegar skólaskyldunni er lokið er því lokið,“ segir Elísabet, jafnan kölluð Bettý. Hún segir einu ástæðu þess að sonur hennar kemst líklega til hennar fyrir jól nýafstaðið óveður.

„Óveðrið varð nú líklega til þess að ég get haldið jól með syni mínum. Það varð svo mikið foktjón hér í grenndinni að það hefur þurft að gera við hitt og þetta og því hefur verið mokað. Hjá mér verður til dæmis gert við kantinn á fjárhúsunum,“ segir hún frá og tekur um leið plötu úr ofninum með smá­

kökum fyrir viðgerðarmennina sem eru væntanlegir. „Þannig að alveg óvænt er orðið léttfært til mín.“

 

Það er kyrrð yfir jólahaldinu.

 

Bettý byrjar alla daga eins og vant er í fjárhúsunum. „Við erum með skötu á Þorláksmessu og svo var ég með hangikjöt í fyrra á jóladag og við hlustum á messuna við borðhaldið. þegar ég var að alast upp var hlustað á messuna áður en borðhaldið hófst, en ég hef þetta svona.

 

“ Rafmagnsleysi háir Bettý og þá hefur ekki verið hægt að horfa á sjónvarp á Sæbóli í tvö ár. „Það er oft rafmagnslaust einhverja daga um jól vegna veðurs en við höfum sloppið á aðfangadag. Ég hlusta stundum á útvarpið og verð stundum örg þegar þeir endurtaka sama þáttinn tvisvar. Það er stór hópur á landsbyggðinnisem nær ekki útsendingum Ríkissjónvarpsins og hefur ekki vísan aðgang að rafmagni. Það stendur til að bæta úr þessu, ég er með gervihnattadisk utan á húsinu sem ég næ illa sambandi með. Það er aldrei hægt að treysta á hann. Ég hef ekki notað hann síðan í fyrra. Svo er ég með radíósíma, því síminn dettur reglulega út líka.“

Hún nýtur samverunnar við soninn yfir hátíðarnar.

„Það færist helgibragur yfir allt. Ég les yfir jólin, er með Reisubók Guðríðar sem ég ætlaði að geyma til jóla en ég hef verið að stelast í hana. Svo finnst mér bækurnar hennar Vilborgar Davíðsdóttur góðar. Það eru ómöguleg jól ef maður hefur ekki góða bók að lesa.“

Bettý segist birg fyrir jólin. Vegna þess hve rafmagnsleysi er títt er hætta á að það sem geymt er í frysti skemmist. „Ég var nú svo heppin að kjötið mitt skemmdist ekki í óveðrinu. Ég var að fá kjötið frá sláturshúsinu og það er í lagi með það. Ég er með tvær frystikistur. Ég er með mjólk og brauð í annarri kistunni. Ég var svo heppin að komast á Flateyri á meðan rafmagnsleysið varð. Ég sá mest eftir frosnu grænmeti semskemmdist en það kemur ekki að sök.“

 

Fréttablaðið laugardagurinn 19. desember 2015.

 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31